Ársreikningur Sveitarfélagsins Voga fyrir árið 2009 var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn fimmtudaginn 6. maí 2010. Raunar hafði ársreikningur ársins 2009 verið tekin til fyrri umræðu þann 23. mars, en í kjölfar tveggja nýrra álita
Reikningsskila- og upplýsinganefndar í apríl, ákvað bæjarráð að breyta framsetningu og meðferð leigusamninga fasteigna í bókhaldi sem og færslu á lóðum og lendum. Því er ársreikningurinn tekinn aftur til fyrri umræðu.
Starfsfólk Sveitarfélagsins Voga hefur lagst á eitt við að sýna mikla ráðdeild í rekstri stofnana en hefur um leið staðið vörð um grunnþjónustu sveitarfélagsins. Á árinu 2009 var útsvar undir leyfilegu hámarki og gjaldskrár fyrir þjónustu lækkuðu að raunvirði. Var það í samræmi við þá stefnu meirihluta bæjarstjórnar að koma í veg fyrir að auknar álögur leggist á heimilin.
Rekstrarniðurstaða A og B hluta á árinu var jákvæð um 0,3 millj. kr., en rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 3,8 millj. kr. Tekjur voru um 12,5 millj. kr. hærri en áætlað var og útgjöld um 25 millj. hærri.
Rétt er að benda á að fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld A og B hluta námu 124,3 millj. kr. á árinu. Vega þar þungt vaxtatekjur og verðbætur Framfarasjóðs. Fjármagnstekjur voru tæpum 17 milljónum lægri en áætlað var, sem skýrist af lægri vöxtum og verðbótum og hækkun fjármagnstekjuskatts á síðasta ári.
Veltufé frá rekstri A og B hluta nam 68,5 millj. kr. Afborganir lána voru rúmar 59 millj. kr. Rekstur sveitarfélagsins stendur m.ö.o. vel undir öllum skuldbindingum. Miðað við að veltuféð verði sambærilegt næstu árin gæti sveitarfélagið greitt upp allar sínar langtímaskuldir á rúmum 7 árum. Sveitarfélagið framkvæmdi fyrir tæpar 50 milljónir króna á árinu 2009 og tók engin ný lán.
Miklar breytingar urðu á bókfærðum eignum og skuldbindingum sveitarfélagsins vegna breyttrar framsetningu og meðferð leigusamninga fasteigna í bókhaldi. Því er óvarlegt að bera saman efnahagsreikning í árslok 2008 og 2009. Skuldir og skuldbindingar A og B hluta námu 2.256,8 millj. kr. í árslok. Þar af námu leiguskuldir 1.649,2 millj. kr. Eigið fé A og B hluta var því 875,9 millj. kr. í árslok.
Eiginfjárhlutfall í Sveitarfélaginu Vogum hefur verið með því hæsta á landinu undanfarin 3 ár. Í ár lækkar hlutfallið úr um 75,5% í um 29% vegna fyrrgreindra breytinga. Eiginfjárhlutfallið er samt sem áður traust og sambærilegt við önnur sveitarfélög.
Eignir sveitarfélagsins eru um 2,6 milljónir á hvern íbúa, meðan skuldir og skuldbindingar eru um 1,9 milljón.
Heimildir til að nýta Framfarasjóðinn voru ekki að fullu nýttar og voru innstæður sjóðsins um 1.370 millj. í árslok 2009.
Samkvæmt sveitarstjórnalögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og verður seinni umræðan í bæjarstjórn fimmtudaginn 27. maí næstkomandi.
Ársreikningur Sveitarfélagsins Voga 2009. Fyrri umræða