Rekstur sveitarfélagsins gekk vel árið 2015 og varð afkoman talsvert hagstæðari en fjárhagsáætlunin gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 25,5 m.kr., en í A og B hluta var niðurstaðan 30,3 m.kr. Bættri afkomu má m.a. þakka hækkun útsvarstekna á árinu.
Launakostnaður hækkaði umtalsvert í kjölfar nýrra kjarasamninga á vinnumarkaði síðla árs 2015, sem að hluta til var mætt með þessum auknu útsvarsteknum. Annar rekstrarkostnaður var í ágætu jafnvægi við upphaflegu áætlun þegar á heildina er litið.
Samkvæmt sjóðsstreymi var lausafjárstaðan góð í árslok, en framkvæmdir ársins voru alfarið fjármagnaðar með handbæru fé.
Sveitarfélagið uppfyllir skilyrði þau sem sett eru í fjármálareglum sveitarstjórnarlaganna, bæði hvað varðar jöfnuð í rekstri og skuldahlutfall, sem var 71,3% í lok ársins 2015.
Ársreikningurinn var samþykktur samhljóða í bæjarstjórn. Bæjarstjórnarmenn lýstu á fundinum ánægju sinni með þann góða árangur sem náðist í rekstri sveitarfélagsins á síðasta ári og færðu starfsfólki þakkir fyrri þeirra framlag við að tryggja góðan rekstur Sveitarfélagsins Voga.