Annríki hjá eldri borgurum í Vogum

Eldri borgarar í Vogum hafa haft í nógu að snúast að undanförnu. Föstudaginn 14. mars bauð frístunda- og menningarnefnd Voga eldri borgurum til bocciakeppni í íþróttamiðstöðinni. Keppt var um forláta bikar, þó keppnin hafi aðallega verið til gamans. Lið frístunda- og menningarnefndar hafði sigur eftir skemmtilega og spennandi keppni. Að lokinni keppni var haldið í Álfagerði þar sem nefndarfólk bauð eldri borgurum til kjötsúpuveislu. Hafði nefndarfólk lagt mikla vinnu og alúð í eldamennskuna og skilaði það sér í diskana. Allir nutu matarins og mæltist þetta uppátæki afar vel fyrir. Líklegt má telja að þessi viðburður sé kominn til að vera.

Þriðjudaginn 25. mars fóru eldri borgarar í Vogum í heimsókn til félaga sinna á Álftanesi. Heimsóknin hófst með móttöku hjá forseta Íslands á Bessastöðum. Þar tóku forsetahjónin ásamt starfsliði á móti gestunum. Forsetinn ávarpaði gestina og af því loknu gafst fólki kostur á að skoða Bessastaði og þiggja veitingar. Var heimsóknin afar vel heppnuð og mikil ánægja var meðal gestanna með gestrisni og móttöku forsetahjónanna. Frá Bessastöðum var síðan haldið í Álftaneslaug þar sem fólk fékk kynnisferð um mannvirkið. Að endingu var haldið í Litlakot sem er félagsaðstaða eldri borgara á Álftanesi. Þar þáðu gestir kræsingar, spjölluðu og skemmtu sér. Mikil ánægja var með ferðina í heild sinni og höfðinglegar móttökur Álftnesinga. Hægt er að skoða fleiri myndir hér.