Bæjarstjórn Sveitarfélgasins Voga samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum þ. 22. febrúar 2017:
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga mótmælir harðlega fyrirhuguðum aðgerðum samgönguráðherra að leggja á vegatolla á Reykjanesbraut og aðrar stoðbrautir. Meirihluti íbúa Sveitarfélagsins Voga sækir vinnu bæði á höfuðborgarsvæðið og einnig til annara sveitarfélaga á Reykjanesi það yrði mikil mismunun að íbúar á Reykjanesi muni þurfa að borga vegatolla við það að fara í vinnu en ekki íbúar höfuðborgarsvæðisins sem vinna á höfuðborgarsvæðinu. Það að rukka fólk um tolla sem sækir sína vinnu til að borga skatt til samfélagsins er ekki líðandi og gengur gegn jafnræði íbúa. Búið er að tvöfalda Reykjanesbraut í landi Voga og mótmælir bæjarstjórn Sveitarfélagsins því alfarið að íbúar þess þurfi að borga vegaframkvæmdir í öðrum landshlutum nóg er borgað í dag í formi eldsneytisgjalds og bifreiðagjalda. Rétt er að benda samgönguráðherra á að Reykjanesbraut er fjölfarnasti vegur utan þéttbýlis og jafnframt hafa íbúar ekki annan raunhæfan valkost til að komast inná höfuðborgarsvæðið og væru því nauðbeygðir til að greiða boðaðann vegtoll.
Einnig er vakin sérstök athygli á að á hinum Norðurlöndunum er veittur skattaafsláttur til þeirra sem sækja atvinnu um langan veg til jöfnunar á ferðakostnaði. Hér á Íslandi hefur ríkið hins vegar haft þá sem búa fjarri vinnustað sínum að féþúfu og nú er áformað að bæta enn við þann kostnað og auka á ójöfnuðinn.
Samþykkt samhljóða með sjö atkvæðum.