Álfasérfræðingur ræðir við íbúa álfhóls við Vogagerði

     

 

Á byggingareit við Vogagerði, þar sem fyrirhugað er að Búmenn reisi svokallað Stórheimili fyrir eldri borgara, stendur álfhóll.

 

Nokkrir íbúar sveitarfélagsins hafa að undanförnu lýst yfir áhyggjum sínum vegna röskunar á þessum forna álagabletti sem varðveittur hefur verið í margar kynslóðir.  Allt fram til dagsisn í dag hafa verið til óskrifaðar reglur um það að háreisti barna og hverskonar rask sé ekki viðhaft á hólnum.  Til eru sögur sem segja frá samskiptum íbúa hólsins við aðra Vogabúa, aðallega þó um hrakfarir þeirra síðarnefndu eftir að hafa átt við hólinn.  Fleiri álagabletti er að finna í sveitarfélaginu Vogum og er Karlshóll sem stendur við Hafnargötu gott dæmi um farsælt sambýli álfa og manna. 

 

Virðing hefur verið borin fyrir álagablettum víða um land og þessum menningararfi okkar haldið á lofti.  Þekktir álfasteinar hafa meðal annars verið færðir og framkvæmdaáætlunum breytt með það fyrir augum að sátt ríki milli þessara ólíku heima. 

 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 30. maí síðastliðinn var ákveðið að kalla til sérfræðing til að ræða við íbúa hólsins um þær miklu framkvæmdir sem nú standa fyrir dyrum.  Á kvenréttindadaginn, þann 19. júní, kom Erla Stefánsdóttir álfasérfræðingur og ræddi við íbúana.  Álfarnir fullvissuðu Erlu um að þeir væru sáttir við það að á þessum stað yrði reist Stórheimili þar sem eldri borgarar í Sveitarfélaginu Vogum geta átt notalegt heimili með glæsilegu útsýni yfir Faxaflóann.  Hólsins verður eflaust saknað en álfarnir hafa nú fundið sér annan samastað, en vildu ekki gefa hann upp.  Framkvæmdir við Vogagerði og Akurgerði geta því haldið áfram, í sátt við menn og álfa.