Ágætlega sóttur íbúafundur um fjármál

Um 40 manns mættu á íbúafund um fjármál sveitarfélagsins sem haldinn var í gær. Á fundinum kynnti Róbert Ragnarsson bæjarstjóri tillögu að fjárhagsáætlun ársins 2009, ásamt tillögu um að verðtrygging höfuðstóls Framfarasjóðs Sveitarfélagsins Voga verði felld niður fjárhagsárin 2008 og 2009 og þeir fjármunir nýttir til framkvæmda og rekstrar. Í kjölfarið fóru fram umræður um tillögurnar og svaraði bæjarstjóri fyrirspurnum.

Tillögurnar verða teknar til seinni umræðu í bæjarstjórn þann 29. janúar næstkomandi.

Fundurinn var fyrsti íbúafundurinn sem haldinn er í sveitarfélaginu um fjármál sveitarfélagsins, en bæjarstjórn hefur mótað þá stefnu að kynna fyrir íbúum tillögu að fjárhagsáætlun hvers árs milli fyrri og seinni umræðu í bæjarstjórn. Vonir standa til þess að íbúar haldi áfram að láta málefni sveitarfélagsins sig varða og fjölmenni á íbúafundi.