Aðventan í Vogum

Fyrstu aðventuhelgina notuðu Vogabúar til að hefja jólaundirbúninginn og var mikið um að vera. Víða eru jólaskreytingar komnar upp sem lýsa svo sannarlega upp bæinn, en á næstu dögum verður auglýst eftir tilnefningum að jólahúsi Sveitarfélagsins Voga.

Í Stóru- Vogaskóla fór fram jólaföndur að frumkvæði foreldrafélagsins þar sem börn og foreldrar áttu góðar stundir saman við föndrið. Mörg heimilin búa nú að fallegum skreytingum sem börnin og foreldrarnir unnu í sameiningu.

 

 

Fyrsta í aðventu fór fram Aðventumessa í Kálfatjarnarkirkju, en að henni lokinni var kaffi í Félagsmiðstöðinni á vegum foreldrafélags leikskólans. Að kaffiveitingum loknum var kveikt á jólatrénu í Aragerði þar sem fjöldi manns kom saman og söng jólalögin með kirkjukór Kálfatjarnarkirkju. Þeir félagar Stekkjastaur og Hurðaskellir komu og gáfu börnunum drykk og smákökur við mikla ánægju yngstu kynslóðarinnar.