Ábending til hundaeigenda

Á heimasíðu sveitarfélagsins má nú sjá lista yfir skráða hunda í sveitarfélaginu. Listinn er gefinn út af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, sem annast umsjón með útgáfu leyfa fyrir hundahaldi. Það er mikilvægt að hundaeigendur sæki um leyfi og skrái hunda sína hjá Heilbrigðiseftirlitinu, sem hægt er að gera á heimasíðu þeirra www.hes.is  

Sérstök athygli er vakin á því að bólusetning og merking með örmerki hjá dýralækni jafngildir ekki skráningu hjá Heilbrigðiseftirlitinu, þannig að jafnframt þarf að sækja um leyfi og skrá hunda hjá eftirlitinu. Hundaeigendur eru einnig hvattir til að tilkynna brottfall hunda af skránni þegar svo ber undir.

Það er von okkar að birting hundaskrárinnar á heimasíðunni hvetji alla hlutaðeigandi aðila til að sinna skyldum sínum sem hundaeigendur. Jafnframt hvetjum við almenning sem telur sig vita um óskráða hunda í sveitarfélaginu að tilkynna það til Heilbrigðiseftirlitsins á netfangið hes@hes.is eða í síma 420 3288.

Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri