Á óvissutímum er fátt mikilvægara en fjölskyldan og samheldið samfélag

Kæru íbúar Sveitarfélagsins Voga

Nú gengur yfir þjóðina nokkurskonar fjármálafellibylur og óvissa mikil um nánustu framtíð. Ljóst er að margir munu lenda í erfiðleikum vegna bankakrísunnar, jafnt fyrirtæki sem einstaklingar. Hinsvegar er mikilvægt að hafa í huga að öll él styttir upp um síðir og við taka betri tímar. Öll grunngerð á Íslandi er traust. Auðlindir eru miklar, svo sem góð menntun þjóðarinnar, orka og sjávarafurðir. Hér í Vogum og á Suðurnesjum öllum er framtíðin þrátt fyrir allt björt, en unnið hefur verið að ýmsum verkefnum sem munu skapa okkur tækifæri og verðmæti til framtíðar.

Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er sterk og munu íbúar geta gengið að þjónustu vísri, eins og verið hefur. Nú koma þeir fjármunir sem sveitarfélagið fékk í hagnað af sölu Hitaveitu Suðurnesja sér vel. Lausafjárstaðan er góð og eignir miklar. Bæjarstjórn stofnaði sem kunnugt er sérstakan Framfarasjóð um fjármagnið og hefur það verið í vörslu Sparisjóðsins í Keflavík undanfarið rúmt ár, við góða ávöxtun.

Forsætisráðherra og viðskiptaráðherra hafa fortakslaust lýst því yfir að allar innstæður í íslenskum bönkum á Íslandi séu tryggðar að fullu og án hámarks. Enginn þurfi að óttast um innstæður sínar. Sveitarfélagið hefur því kosið að halda öllu sínu fjármagni í Vogaútibúi Sparisjóðsins og leggja þannig sitt af mörkum til þess að Spkef haldi sjó. Nágrannar okkar á Suðurnesjum hafa gert slíkt hið sama og reynum við eftir fremsta megni að styðja við grunngerðina á svæðinu. Innviðir samfélagsins á Suðurnesjum eru sterkir og munu Suðurnesjamenn komast í gegnum þetta öldurót eins og þeir hafa alltaf gert.

Bæjarstjórn Voga fylgist náið með stöðu mála á fjármálamarkaði í góðu samstarfi við stjórnendur Sparisjóðs Keflavíkur og fjármálaráðgjafa sveitarfélagsins. Auk þess er mikið samstarf og samráð milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

Mikilvægt er að íbúar standi saman og líti eftir hverju öðru þegar áfall sem þetta dynur á okkur. Þá er gott að leita til þess sem sameinar okkur. Vogar eru fjölskylduvænt og barnmargt samfélag og búum við vel að því til framtíðar. Fræðslu- og uppeldisstarf í Vogum gengur vel, þar sem starfsmenn sveitarfélagsins eru að sinna þjónustu við rúmlega 300 börn í skóla, leikskóla og tómstundastarfi.

Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja alla íbúa í Vogum til að halda áfram að byggja upp öflugt fjölskylduvænt samfélag og huga að velferð okkar nánustu. Börnin okkar þurfa á því að halda að við séum bjartsýn og sýnum hverju öðru stuðning.

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri