Á ég að gæta bróður míns? - Forvarnarþing 2009

Síðastliðinn mánudag var haldið annað forvarnarþingið í Vogum. Hið fyrsta var haldið í upphafi árs 2007. Á þinginu var lögð áhersla á almennt forvarnarstarf og grenndargæslu.

 

Ólafur Þór Ólafsson, frístunda- og menningarfulltrúi flutti erindi þar sem hann lagði áherslu á mikilvægi samveru fjölskyldunnar og ábyrgð foreldra á vellíðan barna sinna. Jafnframt lagði hann áherslu þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Í erindinu fór hann yfir þróunina á Suðurnesjum undanfarin ár, og gat þess m.a. að neysla tóbaks og áfengis hafi stöðugt farið minnkandi undanfarin 10 ár.

 

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á Suðurnesjum fór yfir stöðu löggæslumála á svæðinu, með áherslu á grenndarlöggæslustöðina í Vogum. Þuríður Ægisdóttir lögreglukona er grenndarlöggæslumaður í Vogum með aðsetur í Íþróttamiðstöðinni. Hennar hlutverk er að byggja upp tengsl við nærsamfélagið og sinna forvörnum í samstarfi við skóla og frístundastarf sveitarfélagsins. Lagði lögreglustjórinn áherslu á að allir geta haft samband við lögregluna og komið tillögum og ábendingum á framfæri, hvort heldur sem er undir nafni eða nafnlaust. Netfang lögreglunnar í Vogum er vogar@dc.is og hefur verið settur upp tengill á það netfang á vefsíðu sveitarfélagsins. Auk þess er hægt að hringja í upplýsingasíma lögreglunnar 800-5005.

 

Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn fór yfir þau atriði sem eru efst á baugi þessi misserin, með áherslu á Voga.  Í máli hans kom m.a. fram að afbrot eins og þjófnaðir, innbrot og skemmdarverk eru álíka algeng og í sambærilega stórum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Umferðarlagabrot og óhöpp og líkamsmeiðingamál eru hinsvegar talsvert færri.

 

Að lokum fór Fjóla Guðjónsdóttir, gæðastjóri hjá Forvarnarhúsi Sjóvá yfir skipulag og framkvæmd nágrannavörslu. Á vef Sjóvá má finna leiðbeiningar um hvernig er hægt að koma upp nágrannavörslu í þinni götu, hverfi eða fjölbýlishúsi (sjá á þessari slóð: http://www.sjova.is/view.asp?cat=1457). Mikilvægt er að nágrannavarsla sé sjálfsprottið verkefni í hverri götu, hverfi eða húsi og íbúarnir taki virkan þátt.  Ólafur Þór, frístunda- og menningarfulltrúi verður tengiliður sveitarfélagsins við nágrannavörsluverkefnin í Vogum. Hægt er að hafa samband við hann í gengum netfangið olafur@vogar.is eða í síma 440-6225. Reglur fyrir nágrannavörslu í Sveitarfélaginu Vogum má sjá hér neðst í þesssari frétt.

 

Í kjölfar erindanna sköpuðust líflegar og góðar umræður og má búast við því að nágrannavarsla verði tekin upp í Vogum á næstu misserum.

 

 

Nágrannavarsla í Sveitarfélaginu Vogum

Frístunda- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Voga hefur samþykkt að taka þátt í verkefninu Nágrannavarsla í samvinnu við tryggingafélagið Sjóvá. Handbók sem inniheldur leiðbeiningar um hvernig hefja á nágrannavörslu er að finna á veffanginu www.sjova.is. Sjóvá kostar nágrannavörsluskiltin og límmiðana sem íbúar fá afhenta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sjá reglur þar að lútandi hér neðar.

Að hefja nágrannavörslu

Ef áhugi er á að koma á fót nágrannavörslu þá er best að byrja á að skoða handbókina um nágrannavörslu á slóðinni www.sjova.is. Í handbókinni er því lýst hvernig hefja á nágrannavörslu.

Til þess að fá afhent skiltið um nágrannavörslu, sem þekkt er orðið um land allt, þarf að hafa samband við tengilið Sveitarfélagsin Voga og skila til hans undirskriftum 70% íbúa þeirrar götu, svæðis, blokkar eða stigagangs sem þátt ætla að taka í nágrannavörslunni. Nóg er að einn úr hverri íbúð skrifi undir.

Tengiliður Sveitarfélagsins Voga er Ólafur Þór Ólafsson, netfang: olafur@vogar.is og sími 440 6225.

Hópstjórinn

Skipa þarf einn hópstjóra í hverri götu, blokk, stigagangi eða svæði. Hlutverk hópstjórans er aðallega að koma upplýsingum til nágranna sinna ef t.d. lögreglan vill koma upplýsingum á framfæri til íbúa um aukin innbrot. Ef hópstjóri flytur þarf hann að skila inn til tengiliðs bæjarins upplýsingum um það hver tekur við af honum.

Reglur um úthlutun nágrannavörsluskilta og límmiða:

1.     Að lámarki 70% íbúa í götu, blokk, stigagangi eða svæði verður að taka þátt í nágrannavörslunni.

2.     Einn hópstjóri skal skipaður fyrir götu, blokk, stigagang eða svæði.

3.     Hópstjóri tilkynnir nágrannavörslu til tengiliðs Sveitarfélagsins Voga og skilar inn undirskriftum frá íbúum sem þátt ætla að taka í nágrannavörslunni.

4.     Hópstjóri tilkynnir til tengiliðs Sveitarfélagsins Voga ef hann flytur hver tekur við hans hlutverki sem hópstjóri.