Starfsmenn Sveitarfélagsins Voga taka sem fyrr þátt í átakinu Hjólað í vinnuna. Alls eru 57 starfsmenn sveitarfélagsins skráðir til leiks í 8 liðum, sem hafa hjólað um 800 km. Þegar 2 dagar eru eftir situr sveitarfélagið í 3. sæti í flokknum fyrirtæki með 70- 149 starfsmenn. Í fyrra tóku 40 starfsmenn þátt, í 5 liðum, og náðu þeim prýðilega árangri að enda í 8. sæti. Starfsmenn sveitarfélagsins eru 95 talsins og taka því um 60% starfsmanna þátt. Árangurinn er því umtalsvert betri en í fyrra, enda sveitarfélagið í sókn !
Það er ekki aðeins kílómetrafjöldinn sem skiptir máli, heldur líka fjöldi ferða. Starfsmenn hjóla og ganga víða að, en ganga eða hjóla innanbæjar. Eirný bæjarritari hefur hjólað flesta kílómetra, en hún býr í Reykjavík og keyrir inn að Vatnsleysu á hverjum morgni og hjólar ströndina fram og til baka í hvaða veðri sem er . Elín skólahjúkrunarfræðingur býr í Reykjanesbæ og hjólar þaðan til vinnu í Vogum.
Í flokki sveitarfélaga stendur baráttan á Suðurnesjum milli Sveitarfélagsins Voga og Reykjanesbæjar. Vogamenn stefna að því að sigla fram úr stóra frænda á síðustu tveimur dögum keppninnar.