30 km hámarkshraði í Vogum

Vogar eru rólegur, vinalegur og fjölskylduvænn bær með rúmlega 1.200 íbúa. Þar af eru um 400 börn og ungmenni undir 18 ára aldri og eru þau mikið á ferðinni um bæinn, bæði hjólandi og gangandi. Það hefur verið stefna sveitarfélagsins um árabil að hlúa sem best að fjölskyldunni og börnum í samfélaginu. Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hefur tekið enn eitt skrefið í þá átt  með því að lækka umferðarhraða í þéttbýlinu í Vogum í 30 km frá og með deginum í dag.

Ákvörðunin er tekin í kjölfar skýrslu sem Sjóvá Forvarnarhús vann fyrir bæinn um umferðaröryggi og merkingar í Vogum. Breytingin er gerð í góðu samstarfi við lögregluna á Suðurnesjum, en frá því í vor hefur lögreglumaður haft aðstöðu í íþrótta- félagsmiðstöðinni og vinnur hann í nánu samstarfi við frístunda- og menningarfulltrúa að forvarnarmálum í bænum. Jafnframt hefur reglubundnum eftirlitsferðum lögreglu um bæinn fjölgað.

Hámarkshraði á flestum götum í Vogum er nú þegar 30 km á klukkstund. Aðeins á Hafnargötu, hluta Stapavegar og hluta Vogagerðis er 50 km hámarkshraði. Breytingin er því jafnt til einföldunar fyrir ökumenn og til að bæta umferðaröryggi, en hámarkshraði verður 30 km/klst í öllu þéttbýlinu frá gatnamótum Hafnargötu og Stapavegar.

Merkingum inn í bæinn hefur verið breytt og áminningar málaðar í götur á vissum stöðum.

Ég vil beina eftirfarandi orðum til ökumanna í Vogum:

Í Vogum búa mörg börn,
okkur þykir vænt um þau öll.
Vinsamlegast akið varlega.


Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri