23 milljónum úthlutað til menningarverkefna á Suðurnesjum

Menningarráð Suðurnesja

Fréttatilkynning 16. desember  2008

Menningarráð Suðurnesja úthlutar föstudaginn 19. desember, 23 milljónum króna til menningarstarfs á Suðurnesjum. Þetta er önnur úthlutun á styrkjum samkvæmt samstarfssamningi menntamálaráðu-neytis, iðnaðarráðuneytis og sveitarfélaga á Suðurnesjum um menningarmál.

Úthlutunin fer fram við hátíðlega athöfn í Flösinni í Byggðasafninu á Garðskaga kl. 17.00. Ávarp flytur meðal annarra formaður menningarráðsins og fulltrúi menntamálaráðuneytisins. Á dagskrá verða einnig tónlistaratriði.

Við auglýsingu eftir styrkumsóknum að þessu sinni hvatti menningarráðið meðal annars til verkefna er leiddu til nýsköpunar á sviði lista- og menningarstarfs, auk verkefna sem miðuðu að aukinni fjölgun starfa, eflingu fagþekkingar á sviði menningar og lista og verkefna er miðuðu að skapandi starfi fyrir börn og ungmenni. Einnig var lögð áhersla á verkefni sem ná yfir fleiri en eitt sveitarfélag og koma menningarstarfi á öllu svæðinu til góða.

Viðbrögð við auglýsingu Menningarráðs Suðurnesja voru afar góð og er ljóst af þeim umsóknum sem bárust að mikil gróska og nýsköpun er í menningarstarfi og menningartengdri ferðaþjónustu á svæðinu. Samstarfsverkefnum fjölgar og er það sérstakt fagnaðarefni

Samstarf ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum
Hinn 3. maí 2007 undirrituðu öll sveitarfélögin á Suðurnesjum samning um samstarf ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum um menningarmál við menntamálaráðherra og samgönguráðherra. Tilgangur samningsins er að efla menningarstarf á Suðurnesjum og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum við slíkt starf í einn farveg.

Menningarráð Suðurnesja
Menningarráð Suðurnesja er skipað fimm fulltrúum tilnefndum af sveitarstjórnum á Suðurnesjum. Menningarráðið úthlutar fjármagni til menningarverkefna á Suðurnesjum samkvæmt ofangreindum samningi og hefur eftirlit með framkvæmd hans.

Frekari upplýsingar veitir skrifstofa SSS,
Sími: 420 3288
sss@sss.is