150 ára afmæli skólahalds í Sveitarfélaginu Vogum. Afmælisþættir (7) - Meira um Thorkillius, Jón Þorkelsson

7. Þáttur: Meira um Thorkillius, Jón Þorkelsson

Í öðrum þætti sagði frá Thorkillii, Jóni Þorkelssyni (1697-1759), sem var barn efnaðra og vel ættaðra foreldra í Innri-Njarðvík, sem þá tilheyrði Vatnsleysustrandarhreppi. Hann varð mikill lærdómsmaður, las og skrifaði mikið, m.a. löng söguljóð á latínu. Jón var rektor Skálholtsskóla í 9 ár; með brennandi áhuga á almennri menntun í landinu og brýndi yfirvöld til að bæta úr æði mörgu. Hann var barnlaus, gaf eftir sinn dag eigur sínar í sjóð til að kosta uppeldi og aðbúnað fátækra barna í sínu heimahéraði. Hefur hann verið kallaður faðir íslenskrar alþýðufræðslu. Á 200 ára ártíð hans 1959 var gefin út bók um hann og Ríkharður Jónsson fenginn til að gera af honum styttu í Innri-Njarðvík, sjá mynd.

Í bréfi frá 1873 er lýst stofnun barnaskólans á Vatnsleysuströnd og segir m.a.:

“Undir skólann var keyptur partur úr hinni svonefndu Brunnastaðatorfu. Viðkomandi prestur ljet hreppsbúa kjósa 4 menn í nefnd til þess með sér sem 5. nefndarmanni að hafa stjórn og umsjón stofnunnarinnar á hendi, var hún eptir almennum vilja hreppsbúa kölluð “Thorchillii barnaskóli í Vatnsleysustrandarhreppi”, og það ekki einungis af því, að svo var til ætlast , að hann skyldi verða nokkurs konar asylum fyrir þau börn, - að minnst kosti innanhrepps, - er sjóður Thorchilli sál. kæmi að notum, heldur einnig af hinu, að menn fundu engum hreppi jafn skylt að halda uppi nafni og minningu Thorchillii, eins og Vatnsleysustrandarhreppi, þar sem hann lifði hið fegursta æfi sinnar. ... Skólanefndin stjórnar stofnun þessari eptir skólareglum sem samþykktar voru á almennum hreppsfundi og sem, að því leyti sem við getur átt, eru lagaðar eptir reglugjörð fyrir barnaskólann í Reykjavík, er svo ákveðið í 27.gr. reglanna að prestur árlega sendi umráðendum Thorchillii sjóðs yfirlit yfir ástand skólans.” Í framhaldi kemur skýrsla m.a. um börnin og lærdóm þeirra fyrsta árið.

Þessi Thorchillii-tengsl voru einkenni þessa skóla. Væri fróðlegt að rannsaka í hve ríkum mæli þetta hefur bjargað lífi og heilsu fátækra barna og orðið til þess að þau komust til mennta. Auk þess að fá kennslu er skólinn athvarf; sum fátæku börnin bjuggu á lofti skólans fyrstu árin. Nú njóta mörg börn sérkennslu og Stóru-Vogaskóli veitir öllum gjaldfrálsan heimaeldaðan og hollan hádegismat.

Jón Sigurðsson skrifar í tímarit sitt, Ný félagsrit, 1842: ”Sá maður, er mest og bezt gagn vann menntamálum á fyrri hluta 18. aldar, var Jón Þorkelsson, skólameistari í Skálholti. Er hann hafði verið skólameistari í 9 ár gat hann eigi lengur unað við hið óþolandi ástand. Árið 1736 sigldi hann á konungsfund. Hann lýsti fyrir konungi hve báglega horfði um Íslands hag, ef fólkið væri látið grotna niður í fáfræði og andlegum vesaldómi. .... Að lokum fékk hann því þó áorkað, að LudvigHarboe, .... síðar Sjálandsbiskup, var sendur til Íslands til að rannsaka ástandið þar. Harboe er einhver bezta sending sem komið hefir frá Dönum. Hann og Jón Þorkelsson ferðuðust hér um landið á árunum 1741—1745.“

Þegar þeir höfðu gert kónginum grein fyrir því sem þeir urðu áskynja, gáfu dönsk stjórnvöld út margar og strangar tilskipanir; um að börn skyldu læra að lesa til að fá að fermast; prestar skyldu húsvitja, sinna barnafræðslu og halda sig frá drykkjuskap, o.fl.. Prentaðar voru bækur og lærdómskver og fleiri fóru í framhaldsnám. Heimilin voru mis fær um að kenna lestur og sumir sem efni höfðu á réðu til þess vinnufólk en prestar lestrarprófuðu börnin.

Harbo lætur gefa út ítarlega tilskipan um latínuskólana strax 3. maí 1743. Skólar skulu vera í Skálholti (24 piltar) og á Hólum (16 piltar), báðir skóla með tvo kennara. Þar er sagt hvað skuli kenna og hvernig, og um aðbúnað og kröfur. Það gekk mis vel að framfylgja öllum þessum fyrirmælum frá Harboe, en lestrarkunnátta og menning þjóðarinnar stórbatnaði næstu áratugi.

 

Heimildir eru þær sömu og í síðasta þætti, auk þess handritað bréf, líklega Stefáns Thorarensen.