Skólinn okkar er þriðji elsti grunnskóli landsins sem starfað hefur samfellt. Eldri eru barnaskólar Eyrarbakka (1852) og Reykjavíkur (1862). Gerðaskóli er stofnaður sama ár, mánuði yngri. Fordæmin voru ekki mörg og skólaskylda engin.
Árið 1870 hóf Stefán Thorarenssen, prestur og sálmaskáld á Kálfatjörn, undirbúning stofnunar barnaskóla í Vatnsleysustrandarhreppi. Efnt var til samskota, keyptur jarðarpartur og reist skólahús sem var vígt 12. sept. 1872 með því að halda þar stofnfund skólans sem hóf starfsemi 1. október og hefur starfað óslitið síðan, stundum á fleiri en einum stað samtímis. Með leyfi kóngsins og Alþingis fékkst 1200 ríkisdala vaxtalaust lán til skólans úr Thorchillii-sjóði sem ekki þarf að greiða meðan skólinn sinnir vel börnum sem minna mega sín.
Thorchilllii-sjóðurinn greiddi um áratuga skeið skólagjöld fátækustu barnanna í skólanum og síðar í fleiri skólum sem stofnaðir voru á Reykjanesskaga, einnig til fátækra heimila um tíma. Mörg “Thorchillii-barnanna” bjuggu á skólatíma í risi skólahússins og ráðið var fólk til að ala önn fyrir þeim. Þannig var skólinn bæði heimavistarskóli og heimangönguskóli og einnig var börnum komið fyrir á nálægum bæjum, m.a. börnum úr Njarðvík, en fyrstu árin var þessi skóli líka fyrir Njarðvíkinga uns þeir komu sér upp eigin skóla rúmum áratug síðar.
Einnig var frá upphafi vísir að unglingaskóla (fyrir fermd börn) og handavinnukennsla fyrir stálpaðar stúlkur í skólahúsinu.
Fyrsta veturinn voru 30 börn í skólanum, þar af 8 fermdir unlingar, og bjuggu 10 af börnunum í skólahúsinu. Í húsinu, sem var 56 m2 að grunnfleti, hæð og ris, var einnig íbúð fyrir kennarann svo það hefur verið búið þröngt. Kannski hefur það komið sér vel því timburhús á þessum tíma voru mjög köld.
Byggt var við skólahúsið 1886 og það stækkað í 90 m². Síðan var það endurbyggt árið 1907 á sama grunni og er myndin af því húsi þegar það var komið til ára sinna.
Í þessum þáttum er víða byggt á bók Guðmundar Björgvins Jónssonar: Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, (útg.1987) einkum bls. 173 – 179.