Síðasti þáttur var helgaður Oddgeir Guðmundsen, fyrsta kennaranum við skólann, veturinn 1872-1873, þá nýútskrifaður guðfræðingur, á uppleið.
Næstu tvo vetur, 1873 -´75, kenndi Þórður Grímsson (f.1841, d.1881) Steinólfssonar úr Reykholtsdal. Þórður kenndi eftir það á nokkrum stöðum. Hann var um tíma skrifari hjá Jóni Thoroddsen, skáldi og sýslumanni á Leirá, skrifað upp kvæði fyrir hann og hluta Manns og konu að höfundinum látnum 1868.
Eldri bróðir Þórðar var Magnús Grímsson (1825 – 1869) prestur á Mosfelli, skáld, rithöfundur, þjóðsagnasafnari og hugvitsmaður.
Daníel (f.1843) og Svanborg (f.1838) Grímsbörn voru systkini Þórðar. Þau bjuggu á skólaloftinu fyrstu starfsárin, lögðu í ofninn, önnuðust húsið og Thorkilliibörnin. Svanborg var þá ekkja með ungan son með sér. Hún var húsmóðir skólans og handavinnukennari, og Daníel aðstoðaði að auki við kennslu. Hann giftist 1878, fluttu hjónin til Ameríku 1885 og eiga þar afkomendur.
Hugsanlega hafa þau systkinin brugðist við þessari auglýsingu St.Thorarensen í Þjóðólfi 1973.
Þriðji kennarinn í röðinni var frændi séra Stefáns, Stefán M. Jónsson, þá 23 ára guðfræðingur. (Sjá mynd.) Hann kenndi veturinn 1875-76 og vann sér ást og virðingu allra barnanna og vandamanna þeirra, að sögn séra Stefáns.
Hér verður gripið niður í grein Jóns Eyþórssonar, í Húnavöku 1987:
„Fullu nafni hét hann Stefán Magnús Jónsson og var fæddur í Reykjavík 18. dag janúarmánaðar 1852. Foreldrar hans voru hjónin Jón Eiríksson landfógetaskrifari og Hólmfríður Bjarnadóttir Thorarensen, bæði af traustum bænda- og prestaættum. Til dæmis var afabróðir hans „þjóðkunnur guðfræðingur, Magnús Eiríksson (1806-1881), er ól mest allan aldur sinn í Danmörku og lét þar mjög til sín taka bæði kirkjumál og stjórnmál.“
Stefán lauk námi frá Latínuskólanum 1873. „Af kennurum skólans hafði hann mest persónuleg kynni við Pétur Guðjohnsen söngkennara, sem hafði hinar mestu mætur á Stefáni fyrir sönghæfni hans og tónlistargáfu. Stefán lærði á fiðlu og orgel á skólaárunum og fékkst nokkuð við tónsmíðar alla ævi. .... Stefán lauk guðfræðinámi í Prestaskólanum vorið 1875. Um þessar mundir máttu prestar eigi vera yngri en 25 ára til þess að hljóta prestsvígslu. Stefán skorti tvö ár í þann aldur. Næsta vetur tókst hann því á hendur kennslu í barnaskóla á Vatnsleysuströnd. Þar var þá mikil búsæld, enda réðust ekki mörg sveitahéruð í slíkan kostnað um þær mundir. Þá var séra Stefán Thorarensen Sigurðsson (1831- 1892) prestur á Kálfatjörn, og var Stefán Magnús á vist með honum. Hólmfríður, móðir hans, og séra Stefán Thorarensen voru þremenningar að frændsemi. Fór hið besta á með þeim frændum, enda voru báðir söngmenn góðir og unnu tónlist. Vorið eftir sótti Stefán M. Jónsson um aldursleyfi til prestsvígslu og jafnframt um Bergsstaðaprestakall í Húnavatnssýslu, að ráði Péturs biskups. Hvort tveggja var veitt, og vígði biskup hann til kallsins 21. maí 1876. .....
Séra Stefán M. .... var manna glæsilegastur að vallarsýn, hár og grannur, fríður sýnum og vel eygður, virðulegur og þó jafnframt alúðlegur i viðmóti. Með komu hans varð gerbreyting á kirkjusöng í sókninni. Hann kenndi fólki nýju sálmalögin, en grallarinn hvarf úr sögunni.“
Var Stefán svo 10 ár að Bergstöðum uns hann tók við Auðkúlu í Svínavatnshreppi 1886 og var þar prófastur.
Ólafur Rósenkranz var fjórði kennarinn, kenndi veturinn 1876 -77. Hann fæddist 1852 í Miðfelli í Þingvallasveit. Hann var bróðursonur Jóns Guðmundssonar, ritstjóra Þjóðólfs, og ólst upp hjá honum. Hann varð stúdent 1874, rúmu ári aður en hann hóf kennslu við Thorchilliibarnaskólann. Hann réðst eftir það til Lærða skólans í Reykjavík sem leikfimikennari og gegndi því starfi ásamt öðru í 32 ár. Ólafur hefur verið mikill dugnaðarmaður og kom víða við. Hann var brautryðjandi nútíma íþrótta á Íslandi. Árið 1895 var hér skoskur maður að kynna nýja íþróttagrein, fótbolta. Skotanum tókst að vekja áhuga Ólafs Rósenkranz og hélt hann áfram að kenna fótbolta suður á Melum eftir að Skotinn fór heim og varð heiðursfélagi Fram og KR. Ólafur varð bindindismaður, stórtemplar 1891 -´97, ritstjóri Good-teplar 1897 -´99, tók þátt í að stofna tvær stúkur 1885, Dagrenningu í Reykjavík og Morgunstjörnuna í Hafnarfirði, en sú stúka byggði Gúttó í Hafnarfirði árið eftir. Ólafur hélt, ásamt öðrum, bindindisfyrirlestra fyrir almenning. Hann var slökkviliðsstjóri 1881 -´85, biskupsritari 1891 - 1908, var lengi bókhaldari hjá Ísafoldarprentsmiðju og ritstjóri Ísafoldar í forföllum, og háskólaritari 1917 til dauðadags 1929.
Segir svo frá næstu kennurum í næsta þætti.
Meðal heimilda er grein í Húnavöku 1987; Saga alþýðufræðslunnar; Kennaratal; greinar í tímaritinu Faxa 1982 og 1990. og minning um Ólaf Rósenkranz í Templar 1929. Einnig auglýsing i Þjóðólfi, og ættarskráin Genealogy.com.