Hvers vegna voru stofnaðir skólar svo snemma í Vatnsleysustrandarhreppi og Garði? Menningarlegt atgervi og framsýni prestanna Stefáns Thorarensen á Kálfatjörn og Sigurðar Br. Sívertsen í Garði hefur ráðið miklu um það. Önnur mikilvæg ástæða, er vaxandi þéttbýli – og var barnaskóli hvati þéttbýlismyndunar.
Árið 1872 nær Vatnsleysustrandarhreppur einnig yfir Njarðvík. Íbúatalan fór vaxandi, nálgaðist 1000, en það var rúmlega1% landsmanna, sem voru þá um 70.000; en í dag búa tæp 0,4% landsmanna í Sveitarfélaginu Vogum.
Á árunum kringum 1830 ræddu frammámenn um stofnun skóla að danskri fyrirmynd en niðurstaðan varð sú að hér væri of strjálbýlt til að safna börnunum í skóla, nema helst í Reykjavík. Umgangskennsla (farkennsla farandkennara) myndi henta betur í dreifðum byggðum. Árið 1830 var reyndar stofnaður skóli í Reykjavík, en þá voru þar 500 íbúar. Sá skóli hélt aðeins út í 18 ár og við tók margra ára þjark á Alþingi sem lyktaði með lagasetningu um þann skóla í Reykjavík sem stofnaður var 1862 og starfar enn (um allan bæinn!).
Hér fiskaðist vel á grunnslóð á þessum tíma, áður en togveiðar komu til. Hér varð þéttbýlla en víða annars staðar, fjöldi íbúa var u.þ.b. 1000 þegar hreppnum var skipt og Njarðvík klofin frá árið 1889. Hér hafði myndast mjög langt og mjótt sjávarþorp með allri ströndinni!
Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur fjallar um það hvernig myndun sjávarþorpa og stofnun skóla á síðari hluta 19. aldar hangir saman, sjá áhugaverða grein hans í tímaritinu Vefni, hér
Árni segir þar m.a.: ”Var ástæðuna fyrir stofnun nýju skólanna að finna í vaxandi þéttbýli? Ef til vill má að hluta til rekja þörfina til þess en einnig má færa fyrir því rök að ein forsenda vaxandi þéttbýlis, eftir 1870 eða svo, hafi verið stofnun barnaskólanna. Sérstaklega á það við um þá sprengingu í stofnun sjávarþorpa sem varð vestanlands, norðan og austan upp úr 1880.
Sjávarþorp með barnaskóla var sennilega meira aðlaðandi í augum þeirra sem ætluðu að flytja úr sveitinni en sjávarþorp án barnaskóla. Stofnun barnaskóla gæti hafa verið mikilvæg forsenda þess að sjávarþorp varð lögmætur búsetumöguleiki á svæðum þar sem nær öll byggð hafði fram að því verið á bújörðum.
Stofnun barnaskólanna á Eyrarbakka, í Reykjavík, á Vatnsleysuströnd (Vatnsleysustrandarhreppur náði einnig yfir Njarðvík) og í Garði 1852–1873 er athyglisverður þáttur í umbreytingu og eins konar endurfæðingu hjáleigu- og þurrabúðahverfa sunnanlands á 19. öld. Þau ruddu brautina þegar kom að því að móta nýtt íslenskt búsetuform, sjávarþorpið. Aðrir þættir í þeirri umbreytingu voru meðal annars stóraukin framleiðsla, sérstaklega á saltfiski til útflutnings, föst búseta kaupmanna og iðnaðarmanna árið um kring eftir 1760, sala konungsjarða í Skálholts-, Hóla- og Viðeyjargóssum til einkaaðila um 1800 og almennt séð breyting á samfélaginu úr lénssamfélagi í kapítalískt samfélag.”
Árið 1703 var Vatnsleysustrandarhreppur samfélag útvegsbænda, hjáleigu- og þurrabúðarfólks, með 21 lögbýli og 64 hjáleigur. Flestar jarðirnar voru í eigu konungs og heyrðu undir Bessastaðagóssið, en höfðu upphaflega verið í eigu Viðeyjarklausturs sem konungur gerði upptækt um siðaskiptin. Á Bessastöðum var helsta bækistöð konungsvaldsins í landinu. Fáeinar jarðir voru þó í eigu kirkna. Þannig voru langflestir íbúar Vatnsleysustrandarhrepps leiguliðar uns kom fram á 19. öld og kóngurinn seldi jarðir sínar bændum. Þá batnaði hagur stærri bænda en hjáleigu- og þurrabúðarfólkið sat eftir. Þannig var ástatt þegar Stefán fékk fólk í lið með sér að stofna skóla.
Myndin sýnir Vantnsleysustrandarhrepp með Njarðvíkum, hið langa og mjóa sjávarþorp, lengd yfir 20 km loftlína.