Segir nú frá þeim kennurum sem lengst hafa starfað við Stóru-Vogaskóla.
Helga Sigríður Árnadóttir er fædd 1937 í Austurkoti í Vogum. Hún gekk í Brunnastaðaskóla hjá Viktoríu sem fékk hana stöku sinnum til að aðstoða sig við kennsluna. Helga lauk gagnfræðaprófi við Kvennaskólann 1954. Hún ætlaði sér ekki að verða kennari, en það vantaði kennara og Jón Kristjánsson skólastjóri plataði hana til að koma að kenna þegar hún var nýútskrifuð, á átjánda ári. „Þetta er nú svo lítið sem þú þarft að gera, bara láta börnin hafa blað og blýant og teikna“, sagði hann einhverju sinni. Hún var lítið eldri en elstu nemendurnir sem áttu það til að stríða henni.
Árni Klemens, faðir hennar, var manna lengst formaður skólanefndar og kann það að hafa stuðlað að því að hún hljóp undir bagga við kennslu. Hún réð sig sem kennara 1955 og kenndi til 2004, í tæp 50 ár! Hún sótti mikið af kennaranámskeiðum, svo sem um kennslu byrjenda, lestrarkennslu og heimilisfræði fyrir nýbúa. Líka dönsku.
Helga var ráðin frá ári til árs þar sem hún hafði ekki kennarapróf. Loks var hún sett kennari með ráðherrabréfi úr penna Ragnars Arnalds 1979 og fékk í kjölfarið full réttindi sem kennari.
Helga tók ársleyfi frá störfum 1988 – 1989 og lauk þá þriggja ára heimilisfræðikennaranámi á einum vetri! Hún kynnti sér jafnframt heimilisfræðkennslu í skólum á höfuðborgarsvæðinu og í Osló.
Árið 1990 var innréttuð sú heimilisfræðistofa sem enn er við lýði og kenndi Helga það fag í fullu starfi það sem eftir var starfsævinnar, en hún lét af störfum 2004.
Helga efast um að hún hefði haldið svo lengi út ef hún hefði ekki skipt yfir í heimilisfræðina. Á einni myndinni er hún umkringd sjö konum sem allar störfuðu við Stóru-Vogaskóla 2002 og höfðu áður verið nemendur hennar.
Jón Ingi Baldvinsson er fæddur 1952. Hann er með handavinnukennarapróf frá 1973. Kenndi á Fáskrúðsfirði 1973 – ´74 og við Langholtsskóla 1974 -´76. Nam síðan húsasmíði og flutti í Voga og kenndi þar smíðar á kvöldin í húsnæði verslunarinnar í Hábæ í Vogum 1978 - ´80. Þá varð hann kennari við Stóru-Vogaskóla í fullu starfi til 2022, í rúm 40 ár, en eitt ár (2008-9 ) náms- og starfsráðgjafi við Njarðvíkurskóla. Auk almennrar kennslu kenndi hann smíðar áfram, fyrst í yfirgefnum skólastofum Brunnastaðaskóla en síðan í sérstakri lausri smíðastofu við Stóru-Vogaskóla, uns Helgi Már Eggertsson tók við smíðakennslunni. Jón gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir fagfélag kennara, skólann og sveitarfélagið. Hann var fyrsti yfirkennarinn /aðstoðarskólastjórinn 1988 og gegndi því starfi í 23 ár. Varð síðan náms- og starfsráðgjafi, síðustu árin í hálfu starfi uns hann hætti sjötugur vorið 2022.
Á mynd sem tekin er nærri aldamótum eru þrír vinir og samkennarar: Steinarr Þór, Helga Sigríður og Jón Ingi. Á stóru myndinni er Jón Ingi (aftast fyrir miðju) ásamt 16 samstarfsmönnum sem jafnframt voru nemendur hans. Myndin er tekin vorið 2022 þegar hann lét af störfum, sjötugur að aldri, hafði kennt í 44 ár.
Guðmundur Þórðarson (f.1958) lauk tveggja ára íþróttakennaranámi á Laugarvatni 1982, kenndi eitt ár í Garðabæ uns hann hóf kennslu við Stóru-Vogaskóla 1983, fyrsta árið í 2/3 stöðu á móti Garðabæ, og kenndi þar sund, leikfimi og almenna kennslu. Leikfimina og sundið kenndi hann í Njarðvík uns íþróttamiðstöðin í Vogum tók til starfa 1993. Guðmundur er enn við störf 2022, í hálfu starfi frá 2020, hefur kennt 39 ár við skólann.
„Það tekur mann 2-3 ár að fá tilfinningu fyrir þessu starfi og 20 ár að ná tökum á því... Til að fá fullt starf í Stóru-Vogaskóla þurfti ég líka að kenna bóklegar greinar, ég sagði já og var bara hent út í djúpu laugina. Tók íþróttamanninn á þetta, hafði góðan aga en aðrir höfðu kannski meiru að miðla.“
Þessir þrír þrautseigu kennarar hafa náð að kenna þrem kynslóðum! Þau hittust nýlega og tóku spjall saman, ein myndin var tekin við það tækifæri. Þar flugu margar skemmtilegar sögur og sumar tæplega hafandi eftir á prenti. Aðalástæða þess hve lengi þau hafa haldið út telja þau vera góðan starfsanda í skólanum. Þar hafi þau eignast góða vini gegnum árin. „Maður fór stundum leiður heim, en dagin eftir skeði alltaf eitthvað skemmtilegt svo það gleymdist“.
Aðrir þrautseigir:
Viktoría Guðmundsóttir skólastjóri í 31 ár, 1921 – 1952.
Særún Jónsdóttir kennari í 28 ár, 1979 – 2019.
Halla Jóna Guðmundsdóttir 28 ár, 1987 – 2018.
Kristín Halldórsdóttir í 28 ár, 1994 – 2022, enn við störf.
Erna Margrét Gunnlaugsdóttir, 23 ár frá 1991 og enn við störf,
Jón H. Kristjánsson í 25 ár, á bilinu 1946 – 1985, þar af skólastjóri í 9 ár og skólabílstjóri um tíma.
Ámi Th. Pétursson í 19 ár, kennari 1889 – 1898 og skólastjóri 1910 – 1920.
Sigurjón Jónsson, skólastjóri í 12 ár, 1886 – 1898.
Hreinn Ásgrímsson, skólastjóri í 12 ár, 1972 – 1985.
Snæbjörn Reynisson, skólastjóri í 12 ár, 1995 – 2007.
Þrautseigustu formenn skólanefndar voru Árni Klemens Hallgrímsson í 32 ár (1926-’58) og Símon Kristjánsson í 17 ár (1962-’74).
Fleira starfsfólk er nefnt í næsta þætti, nr. 45.
Heimildir: Kennaratal á Íslandi, viðtöl við viðkomandi kennara, skólasetningar- og slitaræður Hreins Ásgrímssonar, fundargerðir kennaráðs og kennararfunda o.fl.