Á fyrstu áratugum skólans lauk skólagöngu flestra nemenda við fermingu. Þó var frá upphafi boðið upp á „sérstaka kennslu“ fyrir fermd ungmenni, en aðsókn virðist hafa verið lítil og sérstaka kennslan oft fallið niður. Skólaskylda kemur fyrst til sögunnar 1907, þá aðeins 10 – 14 ára, en lengdist í áföngum og varð 8 ár 1936, þ,e, 7 – 15 ára, með undanþágum, einkum í dreifbýli. komst ekki á hér fyrr en 1961). Varð svo 9 ár 1985 (7 – 16 ára) og er 10 ár frá 1990 (6 – 16 ára).
Ungmennafélagið Þróttur gekkst fyrir unglingakennslu í samkomuhúsinu Kirkjuhvoli og Stefán Hallson kenndi þar unglingum, m.a. ensku. Haustið 1936 var fyrsta unglinganámskeiðið haldið í Kirkjuhvoli með 26 nemendum og kennt í 12 daga (síðdegis eða kvöld). Árin 1937-1939 var starfandi kvöldskóli (unglingaskóli) í Kirkjuhvoli á vegum Þróttar. Stefán Ingimundarson skrifar í blað Þróttar, Vitann, í jan. 1938:
„Merkasta málið, sem félagið beitti sér fyrir á árinu var efalaust unglingakennslan, sem það hélt uppi á síðast liðnu hausti í 36 daga á 8 vikum með 17 föstum nemendum. Námsgreinar voru: Íslenska, munnleg og skrifleg, skrift, reikningur og danska. Kennslugjald nemenda var 10 kr og er það vísu ekki hátt en þó hærra en æskilegt er að hafa það. En eins og allir vita er fjárhagur félagsins svo bágborinn að óhjákvæmilegt var að láta nemendurnar borga sem allra mest af kostnaðinum við skólan ...“ (Óbirt grein Sesselju Guðmundsd.).
Með fræðslulögum 1946 taka nemendur annað hvort landspróf, sem veitti rétt til að setjast í menntaskóla, eða gagnfræðapróf. Meira en áratugur leið þar til farið var að bjóða upp á fasta unglingakennslu við Brunnastaðaskóla, en hreppsbúar voru hvað fæstir um þetta leyti, allt niður undir 250, eins og sjá má á línuritinu, sem er úr ritgerð Bryndísar H. Bjartmarsdóttur frá 1983.
Haustið 1960 tilkynntu skólayfirvöld hér fræðslumálastjóra að bekkur miðskóla yrði starfræktur næsta skólaár. Árið eftir urðu börnin skólaskyld 7 – 15 ára, og 2. bekkur miðskóla starfræktur, en þó þannig að báðum bekkjunum var kennt saman. Svo var skólaárið lengt úr 7 í 8 mánuði 1962. Árið 1967 var sótt um fjármagn til að bæta nám unglinganna og kenna 1. og 2 bekk aðskilið, en fékkst ekki. Frá 1968 hefst kennsla að hausti 1. sept.
Margir nemendur luku skólagöngunni eftir 2. bekk, en sumir fóru í gagnfræðaskóla, einkum í Njarðvík eða Keflavík, eða í heimavistarskóla, og luku þar gagnfræðaprófi eða jafnvel landsprófi sem gaf réttindi til að fara í menntaskóla. 1969 var sótt um að skólabíllinn flytti gagnfræðanema og 4 bekkjar, til Keflavíkur að morgni og til baka um hádegi (þá sem ekki þyrftu að vera lengur).
Eftir veturinn 1970 -´71 rukkaði ráðuneytið hreppinn um 30.612 kr, þar sem nemendur hefðu aðeins verið 19, en ættu að vera 26. Var þá rætt um að koma nemendum unglingadeildar fyrir í Gagnfræðaskóla Keflavíkur, því menn töldu að nemendur væru ekki nægilega margir til þess að hægt væri að hafa þá í tveimur bekkjardeildum, og hæpið að einn eða tveir kennarar væru það vel að sér að þeir gætu kennt allar námsgreinar sem kenna ætti í unglingadeildum. Foreldrar voru mjög andvígir þeirri ráðagerð, töldu að það væri bæði skaðlegt fyrir hreppinn og fyrir andlegt og félagslegt atgerfi nemenda. Árið 1972 hafði menntamálaráðuneytið samið skýrslu um framtíðarskipan skólamála á Suðurnesjum. Þar kom fram það álit að flytja ætti öll skólabörn eldri en 10 ára til nærliggjandi byggðarlaga. Þessu var mjög illa tekið af foreldrum og skólanefndinni og var ekki framkvæmt.
Lög um grunnskóla voru sett 1974. Þá voru barna- og unglingaskólar felldir saman í grunnskóla. Í stað landsprófs eða gagnfræðaprófs tóku nú allir grunnskólapróf, m.a. samræmt próf í 2 - 6 námsgreinum. Næsta áratug þurftu nemendur að fara í aðra sveit til að ljúka grunnskólapróf, en 1985 hófst hér kennsla 10, bekkjar, sem þá hét reyndar 9. bekkur fyrstu árin, og gátu nemendur lokið grunnskólaprófi í heimasveit upp frá því. Stofnun Fjölbrautaskóla Suðurnesja 1976 gerði nemendum auðvel
dara að halda áfram námi eftir grunnskólapróf, hvort heldur til iðnréttinda eða stúdentsprófs, og mörgum árum síðar einnig fötluðum nemendum í starfsdeildum.
Myndina tók Eyjólfur Guðmundsson af lúðrasveit Tónlistarskóla Keflavíkur við vígslu íþróttamiðstöðvarinnar í Vogum haustið 1993.
Heimildir m.a.: Saga alþýðufræðslunnar. Skólar á Suðurnesjum, Faxi 1. 1990. Vitinn, handskrifað blað ungmennafélagsins Þróttar og óbirt grein Sesselju Guðmundsdóttur, byggð þar á. Gjörðabók skólanefndar. Almannafræðsla í Íslandi 1880 – 2007. Viðtöl ÞÖ við kennara og fyrrum nemendur. Bryndís H. Bjartmarsdóttir, 1983, Byggð og atvinnulíf í Vatnsleysustrandarhreppi 1880 – 1980.