Skólinn var frá upphafi heimangönguskóli, en allt of löng ganga var í skólann úr sumum hverfum, t.d. hálftími úr Vogum og klukkustund úr Kálfatjarnarhverfi. Hann var að hluta heimavistarskóli fyrtu árin, því nokkur af börnunum höfðu viðlegu í risi skólans, ásamt umsjónarfólki á 50 fermetrum undir súð! Ekki er ljóst hve lengi sú tilhögun stóð. Einnig voru börn vistuð á nálægum bæjum. Um árabil voru aukaskólar, með farskólasniði, í barnmörgum hverfum. Á 4. áratugnum voru lögð drög að byggingu heimavistarskóla, sem þá voru algengir um sveitir landsins. Á þeim árum greiddi ríkið helming af byggingarkostnaði heimavistarskóla, en aðeins þriðjung af heimangönguskóla.
Árið 1942 tók skólanefnd Brunnastaðaskóla upp þá nýjung, að leigja bíl til að flytja daglega í Brunnastaðaskóla þau börn, sem sækja áttu Vatnsleysuskóla, en hann var um leið lagður niður. Jafnframt að hefja undirbúning að daglegum bílflutningi skólabarna til og frá skólanum næsta skólaár. Stefán Hallsson kennari (sjá mynd) bjó sig undir að annast keyrsluna. Haustið 1943 féllust skólanefndir barnaskólanna á Vatnsleysuströnd og Ölfusi á það, fyrir milligöngu Bjarna M. Jónssonar, námstjóra héraðsins, að gera tilraun til að flytja börn í sérstökum skólabílum sem hrepparnir keyptu. Bjarni færir gild rök fyrir kostum skólabíls í grein í 3. tbl. Menntamála 1944. (Bjarni hafði verið skólastjóri í Grindavík 1925-1929 áður en hann varð námstjóri.) Kannski var þetta ekki svo frumleg hugmynd því þá hafði mjólkurbíll gengið nær daglega eftir endilangri Vatnsleysuströnd í tvo áratugi.
Skólabílatilraun þessi var framkvæmd veturinn 1943 – 1944 og gafst svo vel að næsta vetur voru einnig skólabílar í Laugarnesi í Reykjavík og í Njarðvíkum. Steán Hallsson kennari sá hér um aksturinn fyrstu tvo veturna.
Síðan var enginn skólabíll haustið 1945 því Stefán Hallson var hættur og gamli bíllinn seldur um sumarið í von um að hægt yrði að kaupa setuliðsbíl, og lokst tókst að útvega bíl. Hreppurinn fékk aðeins þúsund króna rekstrarstyrk fyrir árið, en ekkert vegna stofnkostnaðar. Í einni styrkbeiðni til kennslumálaráðuneytisins segir fræðslumálastjóri: „Þessi tiiraun með skólabílana hefur gefist vel. Ég er viss um að í framtíðinni verða mörg skólahverfi, sem leysa vandkvæði sín í skólabyggingarmálum og skólasókn með því að hafa skólabíl." Í bréfi til fræðslumálastjórans í Reykjavík (dags. 4. des. 1945) fór oddviti, Jón G. Benediktsson, fram á að fá endurgreiddan hluta af þeim kostnaði sem hreppurinn hafði haft af skólabílum og segir meðal annars: „Þar sem þetta er nýr útgjaldaliður fyrir hreppinn við skólahaldið, og þessi nýbreytni við skólahaldið var gerð í samráði við yður, að nokkru leyti í tilraunaskyni fyrir barnaskóla yfirleitt sem líkt er ástatt með og skólann hér, þá væntum við að hreppurinn fái ofangreindan kostnað (kr. 8.348,36) fyrir árið 1944 endurgreiddan að verulegu leiti.“ Málaleitan þessari var svarað með 3000 króna framlagi ríkissjóðs, „sem samsvarar launum ráðskonu sem mundi hafa þurft að hafa við skólann, ef hann hefði verið heimavistarskóli."
Skólaárið 1946 var Jón H. Kristjánsson settur kennari við skólann og tók jafnframt að sér skólaaksturinn. Skólanefndin óskaði eftir því að hann yrði skipað
ur kennari eftirleiðis, þar sem skólastjóri og skólanefnd töldu fulla þörf fyrir tvo kennara. Nefndin fór þess á leit að honum yrði veitt innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir sex manna amerískri fólksbifreið, sem notuð verði til flutninga á skólabörnum (fyrstu árin var notast við gamlar bifreiðar, sem reyndust ófullnægjandi). Skólanefndin taldi eðlilegt að bifreiðin væri í eign kennarans, þar sem hann var ákveðinn í að vera næstu ár og tilbúinn að sjá um skólaakstur. Leyfið fékkst, Jón keypti sér „drossíu" sem gekk undir nafninu „Svarta María" og sá um skólaaksturinn næstu tvö ár, fyrir 80 kr á dag. Haustið 1952 tók Jón að sér aksturinn að nýju (100 kr á dag 1954, 250 kr á dag 1956). Sá hann um aksturinn til 1960 og var Svarta María þá gamall lögreglubíl (sjá mynd, nemandinn er Sveinbjörn Egilsson, f.1947, faðir Hilmars, núverandi skólastjóra).
Árið 1960 keypti hreppurinn ársgamalt Volkswagen rúgbrauð (sjá mynd) og skiptu Pétur Jónsson oddviti og Gunnlaugur Jónsson skólastjóri með sér akstrinum, síðan næstu ár Hafsteinn Snæland, Hlöðver Kristinsson og Haukur Guðmundsson, allir búsettir á Vatnsleysuströnd. Frá 1973 sá Kópur Z. Kjartansson um aksturinn á eigin bíl til 1990. Þá tóku konur við akstrinum á bílum í eigu sveitarfélagsins, fyrst Margrét Pétursdóttir í 5 ár og síðan Hrafnhildur Bryndís Rafnsdóttir í 15 ár, allt þar til 2010 er starfsmenn bæjarins tóku við skólakstrinum, ásamt akstri Vogastrætó, sem flytur fólk til móts við strætó á Reykjanesbraut á virkum dögum.
Heimildir: Skólar á Suðurnesjum, kaflinn Akstur skólabarna. Skólar á Suðurnesjum, Faxi 1 tbl. 1990. Munnlegar upplýsingar m.a. frá Sesselju Guðmundsdóttur. Bjarni M. Jónsson, námstjóri. Skólabílar, Menntamál, 17. árg. 1944. Gjörðabók skólanefndar.