Í 10. þætti var sagt frá kristindóms- og stafrófskverum fyrir stofnun barnaskóla, en útgáfa þeirra fór að blómstra um 1800. Þá er farið að gefa út fræðslurit og einhver þeirra hafa nýst barnaskólum. Dæmi um það er Lestrabók handa alþýðu á Íslandi, (Alþýðubókin) eftir Þórarinn Böðvarsson, prest að Görðum og stofnanda Flensborgarskóla. Í þeirri bók er safnað á einn stað (á 423 síður) því helsta þá þótti hæfa að vita. Fyrirmyndin var P. Hjorts Danski Börneven. Var bókin framlag Þórarins til þjóðhátíðarinnar 1874 og 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar. Hún kom út 2 árum eftir að skólinn okkar var stofnaður og hefur eflaust verið notuð þar.
Í þáttum 9, 13 og 15 um skóla á Suðurnesjum er lýst kennsluaðstæðum og fátæklegum kennslutækjum fyrir aldamótin 1900.
Í skólaskýrslu eftir veturinn 1895 er skráð eftirtalin áhöld í eigu Norðurkots- og Suðurkotsskóla: Harmoníum nýtt, virt á 120 krónur; nýr uppdráttur af Íslandi, virtur á 6 krónur; geografiske anskuelsistabeller (landakort) ný, 6 kr; Evrópukort, nýtt, á 12 kr; tellurium (jarð- og sól-líkan) nýtt, 16 kr; kynflokkamynd, ný, á 2 kr; og smærri landabréf. Framangreint ár höfðu verið 37 börn í skólunum 10 – 14 ára og kenndu þeir Sigurjón Jónsson og Jón G. Breiðfjörð.
Veturinn 1908 – 1909 voru kennslugögn í Norður- og Suðurkots-skólum þessi: Landabréf Íslands 2 stk, landabréf Evrópa 2 stk, landabréf báðar hálfkúlur, landabréf Norður Ameríka, landabréf Suður Ameríka, landabréf Afríka, landabréf Asía, landabréf Ástralía og landabréf Palestína. Dýramyndir 50 stk, mannslíkaminn á pappa. Húsdýralitmyndir 12 stk. Kúlnagrindur fyrir reikning 2 stk. Meterstika 7 stk. Naturhistorisk Atlas.
Veturinn 1918 – ´19 voru þessi kennslugögn í Suðurkotsskóla: Sýningarmyndir biblíunnar, gamla og nýja testamentið. Kronbergs Bibel historiske billeder 17 stk., Árstíðarmyndir 4 stk., Anatomiske vægtavler (maðurinn) 4 stk, Chr. Eriksen billeder fra land og by 60 stk.; C C Kristensen kort 10. stk.; öll nauðsynleg landafræðiáhöld; P. Dalbergs skólaatlas; C.R. Sundströms Naturhistorisk Atlas; Æfingar í réttritun 11 stk.; S.A. Gíslason, Reikningsbók I og II hefti; Jónas Jónsson, Reikningsbók I og II hefti; Sam. Eggertsson, Alþýðlegur samanburðarleiðavísir (metrak.); Metrastika, kassi með metrakerfis áhöldum; H. Briens flatarmálsfræði; E. Briem reikningsbók; M. Hansen reikningsbók; Barnasálmabókin 3 stk.; Leikföng 10 stk.; Bók náttúrunnar 5 stk.
Þegar nýtt skólahús var tekð í notkun 1944 var ekkert af búnaði og kennslugögnum í eldra húsinu talið nothæft til að flytja í það nýja.
Allt frá fyrstu pælingum um barnaskóla á Íslandi, á 18. öld, var talið eðlilegt að skóli ætti bújörð, til ábúðar fyrir kennarann. Þegar barnaskólinn á Vatnsleysuströnd var stofnaður var keypt undir hann hálf jörðin Suðurkot, en henni fylgdi aðstaða til sjóróðra og að taka þang til eldiviðar, sbr. Lýsingu St.Thorarensen í Þjóðólfi 1873. Stóð skólahús á þeirri jörð uns flutt var í Voga 1979, en þar fékk skólinn úthlutað rúmgóðri lóð úr túni Stóru-Voga. Nálægt 1900 var keyptur hluti af jörðinni Stóra-Knarrarnes í því skyni að afla tekna til reksturs skólans og var jörðin veðsett þegar tekið var lán til byggingar Norðurkotsskóla 1903. 1925 vill skólanefndin hætta afskiptum af jarðeignum skólans, en leigir þó út Knararnesjarðarpartinn 1926 – 1930. Einhvern tíma eftir það hefur sveitarsjóður tekið þetta yfir.
1936 taka gildi lög um Ríkisútgáfu námsbóka og Fræðslumyndasafn ríkisins var stofnað 1961, sem lánaði kvikmyndir til skóla. Þessar stofnanir runnu, ásamt Skólavörubúðinni, saman í Námsgagnastofnun 1980. Bókaútgáfa jókst alla 20. öldina - og svo kom internetið .....
Helstu heimildir: Greinar í Faxa 1990, skjöl skólanefndar o.fl.