13ándagleði

Þrettándagleðin var haldin að venju þann 6.janúar. Það hefur tíðkast í þó nokkur ár að hreppsbúar klæði sig upp á og skarti hinum ýmsu gerfum, sem oft á tíðum eru hönnuð sérstaklega fyrir þennan dag. Engin undantekning var á þetta árið. Var safnast saman við samkomuhús staðarins, Glaðheima, þar sem börnunum var boðið upp á andlitsmálningu og þaðan masserað fylktu liði með kóng og drottningu í fararbroddi á sjávarkambinn firir neðan Stóru-Vogaskóla  þar sem tendraður var eldur í brennu. Var þar sungið og trallað undir söng viðstaddra. Mikilfenglegasta flugeldasýning Björgunarsveitarmanna sem sést hefur á svæðinu rauf síðan kyrrð himinhvolfsins, við mikinn fögnuð viðstaddra. Að lokum var gengið fylktu liði í Íþróttamiðstöðina þar sem gleðin hélt áfram um stund við undirleik harmónikku og gítars  þar sem börn og fullorðnir dilluðu sér í takt við tónlistina.
Virkilega skrautlegir gestir sýndu sig þetta kvöld og var gaman að sjá  allar þær furðuverur sem leynast í Vogunum. Voru þær allar leystar út með verðlaunum í þetta sinn.
Hér fyrir neðan getur að líta skemmtilegar myndir sem teknar voru þetta  eftirminnilega kvöld.