130 ára afmæli skólahalds í Vatnsleysustrandarhreppi

 

1. október 1872 hófst skólahald í Vatnsleysustrandarhreppi. Skólanum var valinn staður í Suðurkotslandi í Brunnastaðarhverfi. Hafist var handa við skólabygginguna um vorið og henni lokið um haustið. Allt timbur var flutt sjóleiðina frá Reykjavík og lánaði Guðmundur Ívarsson bóndi og útgerðarmaður á Neðri Brunnastöðum bæði skip og mannskap til flutninganna. Þurfti að bera allt timbur á bakinu frá skipi og upp á skólalóðina.

Skólinn fékk árlega styrk úr Thochilliisjóðnum og var því hlutur sveitarinnar lítill í stofnkostnaði skólans. Kennsla hófst eins og áður segir 1. október og stóð fram í lok mars. Nemendur voru 29 og voru þeir teknir inn í skólann á tíunda ári, ef þeir voru sæmilega læsir. Sú ábyrgð hvíldi á heimilinum að kenna þeim að lesa. Kennt var alla daga nema sunnudaga, frá kl. 10-14:30.

Börnin gengu í skólann og var það langt fyrir sum, eða allt upp undir einnar klukkustundar gangur. Mjög strangt var tekið á mætingarskyldunni og einnig á heimanámi nemenda.

Haustið 1877 voru 24 nemendur í almennu námi og auk þess voru 4 fermd börn í sérkennslu, sem var undirbúningur fyrir Lærða skólann. Þrenn próf voru þennan vetur, inntökupróf að hausti, miðsvetrarpróf 23. desember og og vorpróf í lok mars.

Sumarið 1886 var reist viðbygging við skólahúsið.

Skólahald var svipað frá ári til árs fram til ársins 1893, en frá því ári mun kennsla hafa hafist á hinum enda strandarinnar. Þótti nemendum og foreldrum langt að sækja skólann eins og fyrirkomulagið var og var því kennt á tveimur stöðum í einu, á Þórustöðum (sem fluttist fljótt í Norðurko)t og í Brunnastaðahverfi.

Árið 1902 fór hreppsnefndin fram á styrk til skólabyggingar á innriströnd, en fékk hann ekki. Sumarið 1903 var nýtt skólahús byggt í Norðurkoti. Íbúð var í risinu en kennsluhúsnæði á jarðhæð.

Haustið 1903 var því kennt á tveimur stöðum í sveitarfélaginu, 28 börnum í Suðurkotsskóla og 19 börnum í Norðurkotsskóla. Svipað kennslufyrirkomulag var í báðum skólunum, þó fengu nemendur í Norðukotsskóla enga dönskukennslu.

Sumarið 1907 var byggður nýr skóli á Brunnastöðum, í stað þess gamla í Suðurkoti. Gamli skólinn sem var orðinn lélegur, var rifinn og allt nýtilegt úr honum notað í þann nýja.

Sumarið 1911 var reist nýtt skólahús á Vatnsleysu og var kennt þar til ársins 1938, að undaskildum árunum 1914-1924. Eftir það lagðist kennsla þar niður og einungis kennt á einum stað í sveitinni, eða í Suðurkotsskóla.

Nokkuð ör kennaraskipti urðu í öllum þremur skólunum frá upphafi eða þar til Viktoría Guðmundsdóttir kom að skólanum 1921. Hún kenndi  og var skólastjóri í 31 ár.

Árin 1925-1943 var kennt á ýmsum stöðum í hreppnum. Stundum kennt á tveimur eða þremur stöðum í senn. Þá fengu sum börn aðeins kennslu lítinn hluta úr ári, þar sem kennarar þurftu að flytja sig milli skólahúsa.

Hugmyndir komu fram árið 1929 um að byggja nýtt skólahúsnæði. Því var fálega tekið af yfirvöldum , meðal annars vegna þess að mikið hafði fækkað í hreppnum á þessum tíma.

Það var svo árið 1943 að leyfi fékkst til að byggja nýtt skólahúsnæði og var Brunnastaðaskóli reistur á því ári og því næsta.

Árið 1944 hefst kennsla í Brunnastaðaskóla og þá var brotið blað í sögu skólahalds í dreifbýli  á Íslandi, þegar akstur hófst með skólabörn.  Skólaaksturinn breytti miklu, þar sem allir nemendur sveitarinnar voru nú á einum stað í kennslu.

Kennsla var meðeðlilegu sniði í Brunnastaðaskóla næstu ár og áratugi, en samfélagið tók smám saman að breytast og þar með forsendur skólahalds. Íbúum á ströndinni fækkaði, en þéttbýliskjarni myndaðist í Vogum.

Árið 1974 kemst skólabygging  á fjárlög og í framhaldi af því er nýju skólahúsnæði valinn staður í landi Stóru-Voga í Vogum. Framkvæmdir hófust í maí 1976 og haustið 1979 er skólinn settur á nýjum stað í nýju húsnæði, Stóru-Vogaskóla. Á þeim tíma er einnig kennt í gamla skólanum á Brunnastöðum. Þar fór fram handmenntakennsla (smíðar).

Skólasund í Brunnastaðskóla hinum fyrri mun hafa farið þannig fram, að nemendur voru sendir í tíu daga ferð til Laugarvatns  að læra sund, árið fyrir fermingu. Fyrir þann tíma höfðu nemendur verið látnir hanga í rólu í ísköldum sjónum og svo tóku þeir sundtökin. Síðar var ekið með  nemendur  til Keflavíkur í sund, viku og viku í senn og seinna til Njarðvíkur í sund- og íþróttakennslu.

Þegar skólahald fluttist í Stóru-Vogaskóla var  ekið áfram með nemendur í sund- og íþróttakennslu til Njarðvíkur, að einum vetri undanskyldum, þegar ekið var til Sandgerðis.

Síðasti áfangi í sjálfstæðu skólahaldi í hreppnum leit svo dagsins ljós haustið 1993 þegar tekin var í notkun ný íþróttamiðstöð og frá þeim tíma hefur allt skólahald verið innan hreppsins.

1998 var byggður annar áfangi við Stóru-Vogaskóla og leysti það úr brýnni húsnæðisþörf starfsmanna og nemenda . Auk þess eru nú þrjár lausar kennslustofur á lóð skólans. Með þeim var hægt að einsetja skólann 2001. Bygging þriðja áfanga hefst innan fárra ára.

Alls hafa 28 skólastjórar starfað í Vatnsleysustrandarhreppi frá upphafi skólahalds, en þó hafa fáir starfað fleiri en 4 ár, en þeir eru:

1.   Pétur Pétursson                   1877-1883

2.   Sigurjón Jónsson                 1886-1898

3.   Jón G. Breiðfjörð                1898-1903

4.   Árni Th. Pétursson               1910-1920

5.   Viktoría Guðmundsdóttir      1921-1952

6.   Jón H. Kristjánsson              1952-1960

7.   Ellert Sigurbjörnsson             1962-1967

8.   Hreinn Ásgrímsson               1972-1985

9.   Bergsveinn Auðunsson         1986-1996

10. Snæbjörn Reynisson             1996-.......

 

 

 

 

Heimildir:

 

  1. Ása Björk Ólafsdóttir, 1994.  Skólinn á Vatnsleysuströnd, Saga hans og samfélagsins 1872-1994. Háskóli Íslands Reykjavík .
  2. Eyjólfur R. Bragason, Magnús M. Jónsson og Steinarr Þór Þórðarson, 1984. Skólahald í Vatnsleysustrandarhreppi 1872-1982.  Kennaraháskóli Íslands, Reykjavík.

 

Nemendur og starfsmenn Stóru-Vogaskóla bjóða alla hreppsbúa velkomna í skólann föstudaginn 29. nóvember, milli klukkan 11:00 - 15:00. Þar getur fólk skoðað ýmislegt sem tengist sögu skólahalds í hreppnum og bragðað á afmælisteru.