Kristján Hafþórsson kíkti til okkar í vinnuskólann í morgun. Kristján heldur úti hlaðvarpi sem nefnist Jákastið. Yfirlýst markmið Jákastsins eru að veita innblástur, gleði og hugrekki sem eru einmitt markmið sem við í vinnuskólanum viljum styðja og efla.
Kristján fjallaði um allt mögulegt og deildi sinni persónulegu reynslu sem hefur verið átakanleg á köflum. Hann talaði um áhyggjur, kvíða, þráhyggju og fleira og hvernig það sé í lagi stundum að það sé ekki allt í lagi hjá manni. Hann fjallaði um tilfinningar og sjálfseflingu og hvernig við þurfum að sýna okkur sjálfum kærleika og hvernig við þurfum að gefa okkur svigrúm til að fara í gegnum tilfinningarnar okkar. Þetta var virkilega jákvæður og eflandi fyrirlestur og kunnum við Kristjáni miklar þakkir fyrir heimsóknina.
Þetta var síðasta vika 8. bekkjar í vinnuskólanum og kvöddum við þau með pizzaveislu í boði Verkalýðs og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, veðrið lék við okkur og var þetta afskaplega ánægjulegur og vel heppnaður dagur.
Líkt og áður hefur verið fjallað um þá var ákveðið að leggja sérstaka áhersla á að koma inn fræðsluefni og valdeflandi boðskap til þátttakenda í vinnuskólanum í ár. Af því tilefni kom Guðbjörg Kristmundsdóttir til okkar á mánudaginn, en hún starfar sem formaður Verkalýðs og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis. Hún hélt mjög áhugaverðan fyrirlestur um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Líkt og gefur að skilja þá er um auðugan garð að gresja í þeim málefnum en hún lagði sérstaka áherslu á að koma til skila hagkvæmum og gagnlegum upplýsingum sem nýtast ungafólkinu er þau stíga sín fyrstu skref í atvinnulífinu.