Umhverfisnefnd vinnuskólans fundaði í morgun og staðfesti umhverfissáttmála vinnuskólans 2023. Þessi flotti hópur staðfesti slagorðið "Láttu þér líða vel" fyrir sumarið og verður það mantra okkar krakka það sem eftir lifir sumars. Áhersla verður á samheldni og samstöðu, valdefli og náungakærleika. Götur bæjarins munu verðar skreyttar með geðorðunum 10 ásamt slagorði vinnuskólans til þess að dreifa boðskapnum meðal bæjarbúa og vonandi ná fram nokkrum brosum í leiðinni.
Áfram verður unnið að þeim markmiðum sem sett voru í upphafi sumars þ.e. að veita innblástur, gleði og hugrekki og kemur af því tilefni Kristján Hafþórsson á morgun. Kristján heldur úti Jákastinu sem er hlaðvarp sem einmit snýst í kjarna sínum um þessi lykil markmið vinnuskólans. Annað markmið vinnuskólans var að kjósa velferðarfulltrúa. Starf velferðarfulltrúa er að vera jafningjum sínum innan handar ef það er eitthvað sem liggur þeim á hjarta, ráðleggingar og stuðningur og að stuðla að samheldni innan hópsins. Velferðarfulltrúinn okkar heitir Örlygur Svanur Aðalsteinsson. Örlygur nýtur stuðnings frá leiðbeinendum vinnuskólans í störfum sínum sem velferðarfulltrúi.