Vinnuskólinn fór af stað af fullum krafti þann 10. júní. Líkt og áður hefur komið fram þá stefnum við á að taka aftur þátt í Grænfánaverkefninu, af því tilefni var tilvalið að hefja sumarið á því að fá hana Sigurlaugu frá Landvernd í heimsókn. Sigurlaug er verkefnastjóri menntaverkefna, Grænfána og umhverfisfréttafólks hjá Landvernd og byrjaði hún daginn á fróðlegum fyrirlestri um Landvernd, því næst fór hún út með krakkana og fór í leiki, þau spiluðu tónlist og höfðu gaman. Að lokum fóru þau svo öll aftur inn og var hún þá með kynningu á Grænfánaverkefninu fyrir þá sem ekki þektu það frá því í fyrra.
Það er gaman frá því að segja að Sigurlaug upplýsti okkur um að í ferðum sínum um landið þar sem hún kynnir Grænfánaverkefnið þá sýnir hún myndir frá okkur hér í Vogum og segir þeim frá okkar flotta árangri, enda sýndu krakkarnir mikinn frumleika og stóðu sig mjög vel í verkefninu í fyrra. Við stefnum að sjálfsögðu að því að halda þeim heiðri áfram á lofti í ár.
Í gær, þriðjudaginn 18. júní, kom Rauði krossinn í heimsókn og kenndi okkur skyndihjálp. Það voru þau Soffía og Rúnar sem komu fyrir hönd Rauða krossins og fóru þau yfir öll helstu atriði í fyrstu hjálp. Fengu krakkarnir meðal annars að æfa sig í hjartahnoði og beitingu Heimlich aðferðarinnar sem notuð er þegar aðskotahlutur situr fastur í hálsi. Það var farið vel yfir notkun hjartastuðtækja og fengu krakkarnir að vita hvar megi nálgast hjartastuðtæki í bæjarfélaginu. Einnig lærðu krakkarnir læsta hliðarlegu og fleira og fleira. Þetta var afskaplega vel heppnað og krakkarnir voru mjög áhugasöm og okkur öllum til sóma. Krakkarni munu öll fá viðurkenningu fyrir þáttökuna frá Rauða krossinum, verður það sent á email þeirra krakka sem gáfu það upp í umsóknarferlinu, annars fer það á email foreldra/forráðamanna.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar svipmyndir frá fyrstu dögum vinnuskólans.