Kristján Hafþórsson kíkti til okkar í vinnuskólann í gær. Kristján heldur úti hlaðvarpi sem nefnist Jákastið. Yfirlýst markmið Jákastsins eru að veita innblástur, gleði og hugrekki sem er einmitt kjarninn í markmiðum vinnuskólans í sumar, en líkt og kunnugt er þá völdu krakkarnir sér lýðheilsu þema í Grænfánaverkefninu og vinna nú út frá því.
Kristján fjallaði um allt mögulegt og deildi sinni persónulegu reynslu sem hefur verið átakanleg á köflum. Hann talaði um áhyggjur, kvíða, þráhyggju og fleira og hvernig það sé í lagi stundum að það sé ekki allt í lagi hjá manni. Hann fjallaði um tilfinningar og sjálfseflingu og hvernig við þurfum að sýna okkur sjálfum kærleika og hvernig við þurfum að gefa okkur svigrúm til að fara í gegnum tilfinningarnar okkar. Þetta var virkilega jákvæður og eflandi fyrirlestur og kunnum við Kristjáni miklar þakkir fyrir heimsóknina.
Þetta var síðasta vika 8. bekkjar í vinnuskólanum og kvöddum við þau með pizzaveislu í boði VSFK, gosi og prins póló, veðrið lék við okkur og var þetta afskaplega ánægjulegur og vel heppnaður dagur.