Umhverfisnefnd vinnuskólans fundaði í dag og fór þar yfir næstu skref í Grænfánaverkefninu - Vinnuskóli á grænni grein.
Í umhverfisnefndinni sitja fulltrúar frá vinnuskólanum og er þeirra verkefni að skipuleggja og hafa yfirumsjón með framkvæmd skrefanna sjö sem sett eru fyrir af Landvernd. Grænfánaverkefnið stýrist af nemendalýðræði og byggir verkefnið á virkri og leiðandi þátttöku nemenda í gegnum allt ferlið.
Fyrsta verk umhverfisnefndarinnar var að velja sér þema til að vinna út frá og varð lýðheilsa fyrir valinu. Nefndin fór í gegnum gátlista þar sem farið var yfir stöðu lýðheilsumála í sveitarfélaginu og í vinnuskólanum, hvað væri vel heppnað og hvað mætti betur fara. Því næst settu þau niður á blað markmið sem þau ætla að vinna að innan þess þema og eins hvernig þau ætla að ná þeim markmiðum og innan hvaða tímaramma.
Krakkarnir höfðu margar skapandi og skemmtilegar hugmyndir og stóðu sig með stakri prýði.