Sveitarfélagið Vogar hefur átt vinasveitarfélag í Noregi að nafni Fjaler í yfir 10 ár. Samskipti hafa verið lítil síðan stofnað var til þessa vinasambands en þökk sé Norræna félaginu hér í bæ urðu breytingar þar á í ár. Samskipti hófust að nýju sem endaði með því að ákveðið var að bjóða 10 ungmennum úr 9. bekk ásamt 3 forráðamönnum þeirra og einum fulltrúa bæjarins í heimsókn til Fjaler. Var ferðin að mestu leiti styrkt af sparisjóði Fjaler. Ég fékk þann heiður að fara fyrir hönd Sveitarfélagsins og fór heimsóknin langt fram úr væntingum mínum. Tilgangur ferðarinnar var að koma á samskiptum milli sveitarfélaganna svo hægt sé að skoða aðstæður og mögulega læra hvort af öðru.
Við flugum út 7. júní til Osló og eftir töluverða bið tókum við innanlandsflug til Förde og þaðan var ferðast með rútu til Dale sem er stærsti byggðarkjarni Fjaler. Við vorum komin upp á gistiheimilið eftir miðnætti þar sem bæjarstjórinn Ketill og menningarfulltrúinn Ingeborg tóku á móti okkur.
Á öðrum degi var farið með okkur í alþjóðlegan framhaldsskóla UWC. Þar geta nemendur um allan heim sótt um að taka 2 seinustu ár sín í framhaldsskóla og eru nemendur frá 98 mismunandi löndum sem stunda þar nám. Í dag eru þar tveir Íslendingar, en einu sinni á ári fær einn Íslendingur skólastyrk. Námið virðist mjög áhugavert og þarna læra krakkar til að mynda hvernig á að búa og vinna með öðrum, 5 nemendur eru saman í herbergi og reynt er að hafa hópinn sem fjölbreyttastann. Ekki skemmir heldur fyrir umhverfið þar sem skólinn er, hann er inni í firði umkringdur fjöllum og skógum. Eftir það var farið í létta fjallgöngu í góða veðrinu og fengum við að njóta fallegs útsýnis þar. Svo var farið aftur til Dale þar sem krakkarnir fluttu af mótelinu og inn til fjölskyldna sem höfðu boðist til að hýsa krakkana það sem eftir var af ferðinni, við fullorðnu vorum hins vegar eftir á mótelinu. Í frí tíma gekk ég um bæinn og skoðaði mig um, ég gat ekki fundið eitt hús í niðurníðslu eða einn ósnyrtilegan garð mér til mikillar undrunar og eiga íbúar Dale hrós skilið fyrir hversu fallegur og snyrtilegur bær þeirra er. Seinna um kvöldið var okkur boðið í mat ásamt krökkum á svipuðum aldri og þar fengu krakkarnir loks tækifæri að kynnast hvor öðru. Það tók ekki langan tíma fyrir alla að gleyma feimninni og eftir stutta stund voru þau öll byrjuð að blanda geði. Við fararstjórarnir fengum að sjá aðstöðu sem er kölluð BUA en það er samfélagsverkefni þar sem búnaður eins og skíði, línuskautar, hjól, veiðistangir og margt fleira er til láns að kostnaðarlausu, einu skilyrðin eru að fara vel með hlutina og að sjálfsögðu að skila þeim.
Á þriðja degi var farið í heimsókn í grunnskóla Dale sem var byggður fyrir 2 árum, stórglæsilegur skóli enda kostaði hann sitt. Þar fengu krakkarnir að sitja tíma og vera með jafnöldrum. Á meðan bauð bæjarstjóri Fjaler mér í kynnisferð um bæinn og sýndi hann mér þeirra helstu staði og kynnti fyrir mér lífið í Fjaler og var ég alveg heillaður. Fjaler er um 3.000 manna sveitarfélag, þar eru 3 byggðarkjarnar, Hellevika, Flekke og Dale en hann er lang stærstur með um 1.400 manns. Mikið er um dreifbýli og maður finnur hús og sveitabæi hér og þar. Fjaler var einn af fyrstu stöðum Noregs sem iðnaðarbyltingin náði til og á árum áður var þarna mikil framleiðsla af ýmsum varningi þar á meðal síldartunnum, skíðum og skóm. Í Fjaler eru 3 leikskólar þar af einn einkarekinn, 3 grunnskólar og 2 framhaldsskólar en annar þeirra er einmitt UWC skólinn og því ekki rekin af sveitarfélaginu. Það kom mér líka mikið á óvart hvað atvinnulífið var fjölbreytt, þarna eru skrifstofufyrirtæki, fiskeldi, iðnaðarfyrirtæki, sveitabú, búðir og ýmislegt fleira. En líkt og hér er sveitarfélagið stærsti atvinnurekandinn. Það kom mér líka á óvart hvað það voru margar verslanir þarna, tvær matvörubúðir, tvær fatabúðir, húsgagnaverslun, Europrís ef þið munið eftir þeim frá því þær voru hér á landi og ýmsar aðrar smábúðir. Bærinn er einnig með listastúdíó þar sem listamenn um allan heim geta sótt um að dvelja í og stunda sína list í fallegu umhverfi upp í hæð yfir Dale. Einnig er setur þar sem rithöfundar víðsvegar að geta sótt um að dvelja og skrifa en því fylgir það eina skilyrði að halda fyrirlestur fyrir íbúa um skrifin sín hvort sem þeim sé lokið eður ei og það vill svo til að íslenskur rithöfundur er á leiðinni þangað. Þarna er elliheimili, heilsugæsla og endurhæfingarstöð. Það var í rauninni svo mikið þarna að ég trúði því varla og er listinn ekki tæmdur. Síðar um kvöldið var hópnum boðið upp á tacos en það er víst venjan hjá flestum Norðmönnum að borða slíkt á föstudögum.
Á fjórða degi kom svo af ástæðunni af hverju okkur var boðið þessa tilteknu daga, en laugardaginn 10. júní var bæjarhátið Fjaler og þá er Arnarsonmila sem er einnar norskrar mílu hlaup eða um 10km. En talið er að Ingólfur Arnarson okkar fyrsti landnámsmaður hafi komið frá þessu svæði og er hlaupið nefnt í höfuðið á honum. Það er stytta af kauða í firðinum sem er eftirlíking af styttunni á Arnarhóli í Reykjavík, en hún var gjöf frá Íslendingum. Við styttuna hófst hlaupið og við Íslendingarnir léttum okkur ekki vanta og hlupum við flest þá annað hvort alla 10 km. eða sem boðhlaup. Ég viðurkenni það að ég hafði smá áhyggjur að hlaupa 10 km. í 24°C hita en þetta gekk svo bara vel og við skiluðum okkur öll í mark. Eftir hlaupið var svo smá hátíð niðri í bæ og um kvöldið var okkur boðið í grill í lítilli vík sem hægt var að hoppa og baða sig í sjónum sem var frískandi eftir hlaupið og eftir það var tekið smá strandblak. Seinna um kvöldið voru svo litlir tónleikar úti. Daginn eftir var svo haldið snemma af stað og flogið heim.
Heilt yfir var þessi ferð frábær. Við fengum öll að sjá hvernig lífið gengur fyrir sig í Fjaler og kynntumst nýju og góðu fólki. Nú verður spennandi að sjá hvort að sambandið styrkist ekki og hvort að samskipti og heimsóknir á milli þessara sveitarfélaga verði ekki að einhverskonar venju. Kannski verður hægt að bjóða ungmönnum og forráðamönnum frá Fjaler til okkar á næsta ári? Það er margt sniðugt í Fjaler sem gaman væri að skoða hvort hægt væri að útfæra einhvern hátt hér í okkar samfélagi.
Andri Rúnar Sigurðsson
Myndir frá ferðinni: