Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum sá stóri viðburður sem á sér stað þessa dagana á Reykjanesinu. Hugur okkar allra er með Grindvíkingum sem hafa þurft að rýma heimili sín og eiga fyrir höndum sér mikla óvissu. Það er vissulega ljós í myrkrinu sú góða samstaða sem myndast hefur með Grindvíkingum og eru allir boðnir og búnir að leggja hönd á plóg, eins og það á að vera.
Við erum jafnframt gífurlega stolt af félagasamtökum okkar Vogabúa. Björgunarsveitin okkar góða hefur staðið vaktina um helgina og m.a. hjálpað til við rýmingu í Grindavík. Fjólu-konur höfðu samband við aðgerðarstjórnstöð á Suðurnesjum og buðu fram aðstoð við að útbúa mat í fjöldahjálparstöðinni á Sunnubraut í Reykjanesbæ og svo hefur Þróttur boðið Grindvíkingum aðgang að öllum æfingum félagsins.
Hvað varðar stöðu okkar Vogabúa þá er staðan, í ljósi alls þess sem á gengur, nokkuð góð. Neyðarstjórn sveitarfélagsins hefur yfirfarið viðbragðsáætlanir sveitarfélagins og fundar nú daglega til þess að taka stöðuna. Neyðarstjórnin hefur upplýsingamiðlun til íbúa í forgangi og er það markmið neyðarstjórnarinnar að íbúar séu vel upplýstir og geti gengið að því vísu að fá skýr og skilmerkileg skilaboð frá sveitarfélaginu. Við munum fylgjast náið með stöðu mála, sem og okkar nær samfélagi.
Síðast en ekki síst þá viljum við biðja íbúa að huga að náunganum, misjafnt er hvernig fólk upplifir þessar skrítnu aðstæður og getur ástandið verið kvíðavaldandi og þungt fyrir marga. Sýnum samstöðu og samhug og munum líka að ræða við börnin okkar og útskýrum fyrir þeim á sem bestan hátt hvað er að gerast.