Syndum Landsátak í sundi 1-30. nóvember 2024

Tökum sundsprett í nóvember! íbúar hvattir til þátttöku í landsátakinu Syndum

Vogar – Í nóvember gefst bæjarbúum tækifæri til að taka þátt í landsátakinu Syndum og njóta sundsins og ánægjunnar við að hreyfa sig saman! Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, í samstarfi við Sundsamband Íslands, stendur fyrir átaki þessu og markmiðið er að hvetja sem flesta til að synda og njóta hreyfingar í sundlaugum landsins frá 1. - 30. nóvember 2024.

Átakið verður sett með hátíðlegum hætti í Ásvallalaug, föstudaginn 1. nóvember, og við hvetjum alla til að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni, hvort sem það er sundsprettur með vinum eða fjölskyldunni. Á síðasta ári syntu þátttakendur samanlagt yfir 26.862 kílómetra – sem nemur meira en 20 hringjum í kringum Ísland! Nú er markmiðið að bæta þann árangur.

Fyrir heilsuna og ánægjuna

Sund er fyrir alla – óháð aldri og getu. Það er ekki aðeins frábær líkamsrækt sem styrkir hjarta, lungu og vöðva, heldur líka góð leið til að njóta lífsins og hvíla hugann. Það besta er að við búum vel að frábærum sundlaugum í landinu þar sem fjölskyldur geta komið saman og átt notalega stund.

Saman í kringum Ísland!

Umsjónafók átaksins mun svo fylgjast með hversu marga hringi þjóðin getur synt í kringum Ísland, og þú getur fylgst með á syndum.is. Þar getur þú séð heildarfjölda syntra metra og jafnvel fengið innblástur fyrir næsta sundsprett!

Svona tekur þú þátt!

Það er auðvelt að taka þátt og leggja sitt af mörkum. Farðu inn á syndum.is, skráðu þig í „Mínar skráningar“ og byrjaðu að skrá niður synta metra í hverri sundferð. Hægt er að nota sama notendanafn og úr „Lífshlaupinu“ eða „Hjólað í vinnuna“ ef þú hefur tekið þátt í þeim verkefnum áður.

Við hvetjum alla bæjarbúa til að taka sundsprett saman, bæta heilsuna og vera hluti af landsátaki sem mun sýna kraft okkar og gleði. Saman syndum við Ísland!