Hraunið sem nú rennur á Reykjanesi hefur farið yfir stofnlögn sem flytur heitt vatn frá Svartsengi til Fitja í Reykjanesbæ. Af því leiðir að það mun verða heitavatnslaust á Suðurnesjunum og þar með talið hjá okkur í Vogum.
HS veitur hafa unnið að lagningu nýrrar heitavatnslagnar í jörðu á þessu svæði og verður hægt að nota þá lögn í staðinn fyrir þá gömlu. Það mun þó taka einhverja daga að koma nýju lögninni í gagnið.
Búið er að fylla á heitavatnstanka á Fitjum og til þess að þær birgðir endist sem lengst eru íbúar beðnir um að lækka í hitakerfum og nota heitt vatn sparlega. Þegar er búið að skerða afhendingu á heitu vatni til stórnotenda.
Jafnframt eru íbúar beðnir um að bíða með að hefja rafkyndingu eins lengi og hægt er vegna álags sem það setur á rafdreifikerfið og nota rafmagn eins sparlega og mögulega kostur er.
Gagnleg ráð og ábendingar má finna hér á vef HS veitna.
Hér má nálagst yfirlýsingu frá HS veitum vegna ástandsins.