Undanfarið hefur borið á því að rusli sé hent á víðavangi í sveitarfélaginu. Íbúi í bænum tilkynnti starfsfólki sveitarfélagsins að hann hefði rekist á hrúgu af drasli og ákveðið að eigin frumkvæði að hóa saman vinum sínum, safna saman ruslinu og fara með í Kölku og þurfti kerru til slíkt var magnið eins og sjá má af meðfylgjandi mynd.
Þetta er til fyrirmyndar þó auðvitað eigi fólk ekki að þurfa að tína upp rusl eftir aðra og koma því á sinn stað. Við viljum hvetja íbúa til að ganga vel um umhverfið okkar og minnum á að gámasvæðið við Jónsvör er opið fjóra daga í viku og þar á þetta rusl heima.