Menningarverðlaun Sveitarfélagsins Voga 2021

Handhafar menningarverðlauna 2021 ásamt bæjarstjóra. 
Mynd: Sindri Jens Freysson
Handhafar menningarverðlauna 2021 ásamt bæjarstjóra.
Mynd: Sindri Jens Freysson

Menningarverðlaun Sveitarfélagsins Voga voru afhent við hátíðlega athöfn sumardaginn fyrsta, 22. apríl. Vegna samkomutakmarkana var einungis hægt að taka á móti 20 gestum og var athöfninni streymt. Þetta er í fjórða sinn sem verðlaunin eru afhent og hægt er að sjá verðlaunahafa fyrri ára hér.

Menningarverðlaun hlutu að þessu sinni Eygló Jónsdóttir rithöfundur og Kirkjukór Kálfatjarnarkirkju. 

Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri afhenti verðlaunin og í umsögn hans um verðlaunahafa sagði hann meðal annars:

 

Kirkjukór Kálfatjarnarkirkju:

Kálfatjarnarkirkja á sér langa og merkilega sögu, sem ekki verður rakin öll hér, en árið 1876 kemur fyrst orgel í kirkjuna og var það meðal annars að frumkvæði séra Stefáns Thorarensen. Orgelið kostaði 470 krónur. Í framhaldi af því var farið að huga að því að útvega organista og sá eini sem völ var á í starfið var Guðmundur Guðmundsson útvegsbóndi og hreppstjóri í Landakoti. Guðmundur var organisti kirkjunnar í 38 ár og það í tveim kirkjum á sama stað.

Kirkjukór Kálfatjarnarkirkju var stofnaður 11. des 1944 og voru stofnfélagar 22. Í fyrstu fundargerð kórsins stendur: „Það hefur verið draumur okkar hér á Vatnsleysuströnd um alllangt skeið, að fá Sigurð Birkis, söngmálastjóra hingað suður til þess að leiðbeina okkur í söng og stofna hér kirkjukór. Nú hefur sá draumur rætst. Í dag mánudag 11. des. 1944 var stofnfundur haldinn í Brunnastaðaskóla, fyrsta kennsludag í hinum nýja barnaskóla að aflokinni kennslu og söngæfingu.“

Sigurður Birkis söngmálastjóri þjóðkirkjunnar aðstoðaði við að stofna kórinn sem hefur starfað óslitið síðan. Fyrsti formaður kórsins var Símon Kristjánsson frá Neðri-Brunnastöðum og fyrsti stjórnandi kórsins var Stefán Hallsson. Núverandi stjórnandi er Davíð Sigurgeirsson og formaður kórsins er Þórdís Símonardóttir.

Eins og áður sagði hefur kórinn starfað óslitið í 77 ár og eins og gefur að skilja skipst á skin og skúrir. Oft hefur gengið erfiðlega að manna kórinn vegna fámennis sóknarinnar og á stundum hefur gengið erfiðlega að fá organista til starfa. Í dag er samstarf milli Kálfatjarnarkirkju og Ástjarnarkirkju og sinna sömu prestar og organisti báðum sóknunum.

Kórinn stofnaði á sínum tíma minningarsjóð um Guðmund Kortsson, einn stofnfélaganna, og var sjóðnum ætlað að styrkja ungt fólk í hreppnum til að læra söng og orgelleik. Seinna var þessi sjóður; í samráði við ekkju Guðmundar, sameinaður kirkjusjóði og var varið til kaupa á núverandi orgeli kirkjunnar. Orgelið var vígt 6. október 1985 og kostaði aðeins meira en hið fyrra eða 1.200.000 krónur.

Kórinn syngur við allar kirkjulegar athafnir í Kálfatjarnarkirkju en hefur einnig sungið við ýmsar aðrar athafnir, heima og að heiman. Þegar kórinn varð sextugur árið 2004 var til að mynda farið í tónleikaferðalag til Þýskalands en einnig haldin söngskemmtun fyrir bæjarbúa. Þá hefur kórinn haldið árlega aðventutónleika til margra ára og aldrei rukkað aðgangseyri. Að lokum má nefna að kórinn söng í mörg ár við þrettándagleði og þegar kveikt er á jólatrénu í Aragerði. Kórinn hefur tekið þátt í sameiginlegum kóramótum á vegum Þjóðkirkjunnar. Kórinn æfir einu sinni í viku og ásamt hefðbundinni kirkjutónlist eru æfð margs konar sönglög. Nýir félagar eru alltaf velkomnir og vel er tekið á móti þeim.

 

Eygló Jónsdóttir:

Eygló Jónsdóttir rithöfundur er fædd og uppalin í Hafnarfirði en flutti í Voga á Vatnsleysuströnd árið 2016 og hefur hún tekið virkan þátt í menningarlífi bæjarins síðan þá.

Samhliða ritstörfum starfar Eygló sem framhaldsskólakennari og kennir við Flenborgarskólann í Hafnarfirði.

Eygló fékk snemma áhuga á bókmenntum og skáldskap og sem unglingur drakk hún í sig bækur Þórbergs Þórðarsonar og vöktu skrif Þórbergs einnig áhuga hennar á heimspeki. Þegar Eygló var svo 15 ára gömul fékk hún einmitt tækifæri til þess að kynnast Þórbergi persónulega þegar hún vann á Vífilstaðarspítala þar sem hann dvaldi síðustu mánuðina. Þórbergur varð upp með sér yfir því að unglingurinn skyldi hafa lesið allar bækurnar hans og tengja svona við þær og ræddu þau löngum stundum um skáldskap og heimspeki þvert á kynslóðarbilið. Þessi kynni Eyglóar af skáldinu urðu síðar kveikjan að brennandi áhuga hennar á skáldskap og heimspeki og hefur þessi áhugi fylgt henni ævilangt.

Börn Eyglóar hafa sagt frá því hvernig, á meðan aðrar mæður sungu vögguvísur fyrir börn sín, þá las Eygló ljóð og ljóðabálka fyrir þau þegar hún var að svæfa þau er þau voru lítil. Voru þá Síðasta blómið í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar og Tindátarnir eftir Stein Steinar í sérstöku uppáhaldi á heimilinu. Börn hennar segja að þessi ljóðalestur hafi mótað þau, og er elsta dóttir Eyglóar einmitt einnig þekkt ljóðskáld í dag.

Nú í vor kom út barnabók Eyglóar Sóley og töfrasverðið í Ljósaseríunni hjá Bókabeitunni. Bókinn fór beint á metsölulista Eymundsson bæði yfir seldar barnabækur og allar íslenskar bækur. En smásagnasafn hennar Samhengi hlutana sem einnig kom út hjá forlaginu Bókabeitunni í fyrra 2020 fékk verðskuldað lof hjá gagnrýnendum. Lestrarklefinn sagði m.e: ,,Samhengi hlutanna er stutt lesning sem fer með lesandann á óvæntar slóðir og vekur kátínu. Sögurnar eru kómískar og innihalda töluvert af gálgahúmor. Smásagnasafnið hefði mátt vera mun lengra.“ Eygló fékk m.a styrk úr höfundasjóði Rithöfundasambandsins til þess að skrifa það verk.

Eygló er með meistaragráðu í ritlist og situr í ritnefnd fyrir tímaritið Mannúð, sem fjallar um frið og mannréttindi. Jólin 2017 gaf hún út barnabókina Ljóti jólasveinninn, sem einnig var litabók og vakti hún verðskuldaða athygli. Og árið 2018 gaf hún svo út ljóðabókina Áttun. Bókin fjallar um ferðalög, bæði bókstafleg og huglæg. Bókin varð til á ferðalagi og í henni leyfir höfundur sér að kanna ókunnugt landslag og nýjar víddir í sjálfum sér.

Árið 2019 var Eygló valin til þess að verða fyrsta ljóðskáld Suðurnesja í Skáldaskápnum á bókasafni Reykjanesbæjar, en verkefnið hóf göngu sína rétt fyrir jólin 2019 og var Eygló þá fyrsta skáldið til að vera valin í Skáldaskápinn. Þá var hún sömuleiðis valin til þess að semja 17. júní ljóð fjallkonunnar fyrir Hafnarfjarðarbæ 2019.

Eygló hefur einnig skrifað fjölda greina í blöð/tímarit, haldið fjölda fyrirlestra um friðar og mannúðarmál og ljóð eftir hana og sögur hafa birst í safnritum. Árið 2018 var hún valin af rithöfunda sambandinu í verkefnið Skáld í skólum þar sem hún ræddi við nemendur vítt og breitt um landið um hvernig saga verður til.

Eygló hefur alla tíð haft brennandi áhuga á samfélagslegum málefnu og hefur hún meðal annars tekið þátt í samstarfshópi friðarhreyfinga í yfir 30 ár, og með þeim undirbúið friðargönguna á Þorláksmessu og kertafleytinguna á Reykjavíkur tjörninni í minningu fórnarlamba kjarnorkusprengjanna á Hírósíma og Nagasakí. Hún hefur skipulagt og haldið alls konar fræðslusýningar um Sjálfbæra þróun, umhverfisvernd og mannréttinda og friðarmál. Síðan er hún formaður Soka Gakkai alþjóðlegu friðarhreyfingu búddista á Íslandi.

Þá hefur Eygló verið dugleg að sinna og skipuleggja ýmsa menningar viðburði í Vogunum. Má þar nefna að fyrir jólin 2019 skipulagði hún Ljóðakaffi í álfagerði og var fullt hús áhorfenda (í þá daga sem ekki var kóvíd og það mátti :D). Þá tóku þau hjónin Eygló og maðurinn hennar þátt í safnadeginum í Vogum fyrr á því árið með því að lána stafasafnið sitt, og Eygló hefur þar að auki lesið upp ljóð eftir sig á viðburðum bæjarins.

 

Sveitarfélagið Vogar er stolt af því að eiga þessa flottu fulltrúa menningar í sveitarfélaginu og óskar þeim til hamingju með útnefninguna.