Hundagerði og lausaganga hunda

Síðastliðið haust tókum við í notkun hundagerðið okkar og er mjög ánægjulegt að sjá hve vel því hefur verið tekið. Svo virðist sem hundaeigendur hafi verið duglegir að nýta sér gerðið og staðið sig prýðisvel að þrífa upp eftir hunda sína.

Að gefnu tilefni vilijum við minna á að lausaganga hunda er bönnuð í sveitarfélaginu og á það líka við utan þéttbýlisins. Á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja (www.hes.is) er að finna samþykkt um hundahald sem gildir í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Þar koma fram skyldur hundaeigenda sem fá leyfi til að halda hunda á starfssvæði eftirlitsins. Skylt er að sækja um leyfi til hundahalds og er unnt að sækja um leyfi fyrir hundum á vef eftirlitsins. Tilkynningar vegna brota á samþykktinni skulu berast til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja í gegnum ábendingahnapp á heimasíðu eftirlitsins.

Samkvæmt samþykkt Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja telst það alvarlegt brot ef hundur veitist að öðrum með urri eða gelti að tilefnislausu. Við biðlum til íbúa að sýna hvert öðru tillitssemi, höfum hundana í bandi í göngutúrum.