Hjónin Bryndís Petersen og Leifur Jónsson sem búa í Brekkugötu 23 voru fyrstu íbúarnir til að taka við nýrri tvískiptri tunnu í Vogum. Þau fengu jafnframt plastkörfu og búnt af bréfpokum til að safna matarleifum úr eldhúsi.
Gunnar Axel Gunnarsson bæjarstjóri ásamt Hönnu Lísu Hafsteinsdóttur verkefnastjóra á Umhverfis- og skipulagssviði færðu þeim tunnuna og er þar með dreifing hafin í Vogum. Björgunarsveitin Skyggnir mun byrja seinnipartinn í dag að dreifa út tunnum og mun verkefnið að öllum líkindum taka einhverja daga.
Við áttum okkur á að það getur tekið tíma að laga okkur að breytingum á flokkunarkerfi og við vonumst til þess að íbúar taki virkan þátt. Við minnum á síðuna góðu www.flokkum.is en þar má finna svör við flestum spurningum um nýja flokkunarkerfið.
Flokkunarkerfið verður tekið í gagnið eftir næstu losun, þ.e. eftir að núverandi tunnur hafa verið tæmdar.