Á fundi fræðslunefndar þann 21. ágúst sl. samþykkti nefndin að stofna stýrihóp sem var falið að vinna drög að stefnumótun um dagvistun barna í Vogum. Hlutverk stýrihópsins var að gera tillögu að heildstæðri stefnu í dagvistarmálum í sveitarfélaginu og vinna stefnumótandi áætlun með tillögum um aðgerðir sem snúa að dagvistun barna frá því að fæðingarorlofi lýkur að grunnskólagöngu og gera tillögur að þjónustuúrræðum og útfærslu þeirra. Í vinnu hópsins var lögð áhersla á að taka mið af væntri íbúaþróun í sveitarfélaginu á næstu misserum og árum.
Markmið um 18 mánaða inntökualdur í leikskóla
Í framhaldi af vinnu hópsins samþykkti fræðslunefnd að leggja til við bæjarstjórn að sveitarfélagið markaði þá stefnu að tryggja öllum börnum sem náð hafa 18 mánaða aldri leikskólapláss þegar leikskólastarf hefst að hausti. Síðustu ár hefur í reynd ekki verið skilgreindur viðmiðunaraldur vegna innritunar barna í leikskóla í Vogum, heldur hafa börn verið tekin inn eftir því sem pláss hefur leyft og aðeins skilgreindur lágmarksaldur barna við inntöku í leikskóla, þ.e. 12 mánaða. Sjá frekari upplýsingar um reglur um leikskólavist.
Hærri niðurgreiðslur
Þá lagði fræðslunefnd til við bæjarstjórn að endurskoða og hækka niðurgreiðslur vegna vistunar barna hjá dagforeldrum og auka val foreldra með innleiðingu svokallaðra heimgreiðslna. Á fundi bæjarstjórnar þann 29. nóvember sl. samþykkti bæjarstjórn breyttar reglur um leikskólavist og með samþykkt fjárhagsáætlunar þann 13. desember sl. samþykkti bæjarstjórn að frá og með 1. janúar rnæstkomandi muni taka gildi nýjar reglur sem m.a kveða á um talsverða hækkun niðurgreiðsla vegna vistunar barna hjá dagforeldrum og nemur grunnhækkun milli ára um 38-56% per dvalarstund barna 12-18 mánaða. Samhliða verða teknar upp sérstakar viðbótargreiðslur vegna barna eldri en 18 mánaða. Sjá frekari upplýsingar um málefni dagforeldra.
Heimgreiðslur
Þá munu foreldrar hafa val um að nýta sér svokallaðar heimgreiðslur. Markmið heimgreiðslna er að brúa bilið frá fæðingarorlofi þar til barn er innritað hjá dagforeldri eða býðst leikskólapláss auk þess að koma til móts við foreldra/forráðamenn eldri barna sem eru að bíða eftir leikskólaplássi. Mánaðarleg greiðsla miðast við almenna niðurgreiðslu hjá dagforeldrum fyrir 8 klst vistun. Sjá frekari upplýsingar um heimgreiðslur.
Stækkun Heilsuleikskólans Suðurvalla
Þá verður unnið markvisst að því að stækka núverandi leikskólahúsnæði, enda megi gera ráð fyrir að þörf fyrir stærra húsnæði fari vaxandi á næstu mánuðum og misserum samhliða fjölgun íbúa í sveitarfélaginu. Þá verður unnið markvisst að því að tryggja mönnun leikskólans með áherslu á að standa vörð um faglegt skólastarf og góðar starfsaðstæður. Vinna við stækkun leikskólans er nú þegar hafin og er gert ráð fyrir því að ný deild taki til starfa á næsta ári.