Heiða Hrólfsdóttir ráðin leikskólastjóri við Heilsuleikskólann Suðurvelli

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að ráða Heiðu Hrólfsdóttur leikskólastjóra við Heilsuleikskólann Suðurvelli. Heiða tekur við starfinu af Maríu Hermannsdóttur sem lætur af starfinu 30. júní næstkomandi.

Heiða lauk leikskólakennaramenntun frá Kennaraháskóla Íslands árið 1997 og stundaði verk- og stjórnendanám við Nýsköpunarmiðstöð Íslands á árunum 2015-2017.

Heiða starfaði sem deildarstjóri við Heilsuleikskólann Suðurvelli á árunum 2017-2020 en á árunum 1999-2004 var Heiða aðstoðarleikskólastjóri við Leikskála á Siglufirði og hafði jafnframt umsjón með sérkennslu. Heiða hefur sinnt umsjónarkennslu við Stóru-Vogaskóla frá árinu 2020.

Um leið og Maríu eru þökkuð góð og uppbyggjandi störf fyrir Sveitarfélagið Voga bjóðum við Heiðu velkomna til starfa. Þeim báðum er óskað velfarnaðar.