Er menning heilsusamleg?

Málþing um tengsl menningar og lýðheilsu - 6. apríl kl. 14:00

Við tengjum gjarnan umræðu um lýðheilsu við heilbrigða lífshætti svo sem hreyfingu og mataræði og jú, í seinni tíð, einnig geðrækt. Flest erum við sammála um að þessir þættir hafi veruleg áhrif heilsu og líðan. En hvað með aðra þætti eins og t.d. menningu? Er hún bara til skrauts á tyllidögum eða getur menning og menningarþátttaka haft raunveruleg heilsusamleg áhrif? Áhugaverð spurning, ekki satt?

Til að varpa betra ljósi á þetta standa menningarfulltrúar sveitarfélaganna á Suðurnesjum fyrir snörpu málþingi um tengslin á milli menningar og lýðheilsu miðvikudaginn 6. apríl kl. 14:00 – 15:30. Málþingið er hugsað fyrir alla þá sem hafa áhuga á viðfangsefninu og alla þá sem vilja stuðla að stöðugt betra samfélagi sem mætir þörfum sem flestra og eykur þannig vellíðan allra sem það byggja.

Málþingið er öllum opið og fer fram í gegnum Teams. Skráning hér

 

Á málþinginu verða flutt fjögur stutt erindi og síðan gefst tækifæri til umræðna.

MENNINGARSÓKN OG LÝÐHEILA - Ásdís Ragna Einarsdóttir, verkefnastjóri lýðheilsumála og Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála.

Ásdís Ragna er grasalæknir sem nemur nú lýðheilsufræði og hefur Reykjanesbær notið starfskrafta hennar í vetur. Hilma Hólmfríður er félagsráðgjafi sem hefur starfað að málefnum innflytjenda og flóttafólks til lengri tíma og verið í starfi hjá Reykjanesbæ frá 2018. Hilma leiddi samstarfverkefni sveitarfélaganna á Suðurnesjum tengt samfélagsgreiningum um lífsgæði, líðan og virkni íbúa í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Gefin var út skýrsla í október 2021 og í framhaldinu hefur verið unnin nánari greining á lýðheilsumálum íbúa sem Ásdís Ragna hefur komið að. Skýr tengsl eru á milli menningarsóknar og líðanar sem farið verður yfir í erindinu.

COVID, SÖFN OG VELLÍÐAN - Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við HÍ

Sigurjón er ritstjóri tveggja bóka sem fjalla um sögu safna hér á landi og hefur fjallað um samfélagslegt mikilvægi safna á ýmsum vettvangi. Árið 2021 leiddi hann verkefni sem fjallar um söfn og vellíðan íbúa á Seyðisfirði í kjölfarið á aurskriðum sem féllu á bæinn og ollu miklu tjóni og skelfingu.

HÁPUNKTUR VIKUNNAR - Berta Dröfn Ómarsdóttir, söngkona og kórstjóri

Berta Dröfn er sópran og kórstjóri Grindavíkurdætra, kvennakórs í Grindavík. Samhliða kórstjórn hefur hún boðið upp á söngnámskeið fyrir börn og fullorðna, þar sem unnið er markvisst að því að viðhalda og varðveita sönggleðina.

ÁHRIF MENNINGARNEYSLU Á HEILSU - Ágústa Kristófersdóttir , framkvæmdastjóri safneignar í Þjóðminjasafni Íslands.

Ágústa var safnstjóri Hafnarborgar frá 2015-2021 en áður var hún framkvæmdastjóri Safnaráðs, sýningarstjóri Þjóðminjasafns Íslands og deildarstjóri sýningardeildar Listasafns Reykjavíkur. Hún hefur einnig unnið við kennslu, sem stundakennari og leiðbeinandi við Listaháskóla Íslands, og stundakennari við Háskóla Íslands. Ágústa er með MA gráðu í safnafræði frá Háskóla Íslands, nam listfræði við Háskólann í Lundi og lauk BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands.

Fundarstjóri verður Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum