Nú ættu allir íbúar á Suðurnesjum að vera komnir með nýjar tunnur og þar af leiðandi fjóra flokka við sitt heimili. Eins og áður hefur komið fram er um að ræða innleiðingu á lögum um hringrásarhagkerfið þar sem sérstök söfnun við heimili skiptist í fjóra flokka; blandaðan úrgang, lífrænan eldhúsúrgang, pappír / pappa og plastumbúðir.
Undirbúningur verkefnisins var í höndum Kölku sem, ásamt sveitarfélögunum á Suðurnesjum, unnu að því að tryggja farsæla innleiðingu. Í upphafi árs náðist samkomulag á milli Kölku og Sorpu um aukið samstarf og samræmingu á flokkunarkerfi hjá sveitarfélögunum á þeirra starfssvæði. Það eitt og sér er mikill árangur því að þannig hefur tekist að samræma kerfi hjá um 70% landsmanna. Mikil áhersla var lögð á einföldun og samræmingu fyrir íbúa í löggjöfinni og því er þetta sérstaklega ánægjulegt.
Um er að ræða ansi umfangsmikið verkefni og samdi Kalka við björgunarsveitirnar í Garði, Grindavík. Sandgerði og Vogum um samsetningu og dreifingu á tunnunum. Á svæðinu eru u.þ.b. 13.000 heimili og áætlað var að ljúka dreifingu í lok júlímánaðar. Dreifingu er nú lokið og má því segja að verkefnið hafi gengið vel og þökkum við björgunarsveitunum fyrir þeirra þátttöku.
Nú þegar hefur flokkun samkvæmt nýja flokkunarkerfinu verið innleidd hjá u.þ.b. 50% íbúa á svæðinu og má með sanni segja að sú flokkun fari vel af stað þar sem góðar heimtur eru á lífrænum eldhúsúrgangi sem og pappír / pappa og plasti.
Þeir íbúar sem eru nýbúnir að fá til sín nýju tunnurnar eru ennþá með annan úrgang í sínum tunnnum en merkingarnar segja til um – þeir þurfa því að bíða þangað til tunnurnar verða tæmdar næst og geta þá hafið flokkun samkvæmt nýja kerfinu. Við minnum þá íbúa sem hafa nýverið fengið til sín nýjar tunnur að æskilegt er að þrífa tunnurnar eftir næstu tæmingu til þess að tryggja gæði endurvinnsluefnanna og taka virkan þátt í hringrásarhagkerfinu.
Stefnt er að því að birta úrgangstölfræði fyrir svæðið þar sem birtar verða upplýsingar um flokkunarhlutfall en eitt af markmiðum með lögunum er einmitt að hækka flokkunarhlutfallið. Hingað til hefur hlutfallið verið í kringum 20% á Suðurnesjum í heild sinni, þ.e. samsöfnun á pappír / pappa og plasti, en nú verða þessar upplýsingar aðskildar þar sem ekki er lengur heimilt að safna þessum tveimur flokkum saman.
Við óskum íbúum öllum til hamingju með nýtt fyrirkomulag og hlökkum til áframhaldandi góðs samstarfs með auknu flokkunarhlutfalli á Suðurnesjum ♻️