Bæjarráð kallar eftir svörum frá ráðherra og stuðningi ríkisins við íbúa Grindavíkur

Á fundi bæjarráðs þann 3. apríl sl. bókaði ráðið og kallaði eftir skýrum og tafarlausum svörum frá ráðherra sveitarstjórnarmála um hvernig ríkissjóður hyggst styðja við sveitarfélagið og önnur sveitarfélög sem sinna grunnþjónustu við íbúa Grindavíkur.
 
Á fundinum var lagt fram svar ráðagjafanefndar Jöfnunarsjóðs við erindi frá Sveitarfélaginu Vogum, þar sem óskað var eftir framlagi úr sjóðnum vegna ófyrirséðs kostnaðar vegna skólagöngu barna með skráð lögheimili utan sveitarfélagsins.
Eftirfarandi bókun var lögð fram á fundinum og samþykkt samhljóða:

"Bæjarráð lýsir yfir vonbrigðum með afgreiðslu ráðgjafanefndar og kallar eftir skýrum svörum frá Innviðaráðherra um hvernig stjórnvöld ætli að standa að fjármögnun þjónustu við þá íbúa sem eru með skráð aðsetur utan síns lögheimilissveitarfélags. Í dag eru tæplega 200 íbúar með skráð aðsetur í sveitarfélaginu Vogum en lögheimili í Grindavík eða sem nemur rúmlega 10% íbúa í sveitarfélaginu. Þó allt kapp hafi verið lagt á að mæta þörfum þessa hóps er nú komið þolmörkum, enda hafa stjórnvöld ekki veitt Vogum eða öðrum þeim sveitarfélögum sem hafa borið mestan þunga af þessu verkefni neinn stuðning í verki.
 
Þrátt fyrir ríkan vilja bæjaráðs til að standa við bakið á nágrönnum sínum í þeirri erfiðu og fordæmalausu stöðu sem þeir eru í, þá verður að horfa til þess að sveitarfélög eru bundin af lögum og heimildir þeirra til að ráðstafa tekjum sínum í annað en lögbundin verkefni eru takmarkaðar. Í sveitarfélögum sem mörg hver búa við mjög veika tekjustofna og hafa jafnvel þurft að grípa til sáraukafullra aðgerða til að tryggja jafnvægi í rekstrinum er ekki hægt að ætlast til þess að tekjum sé varið til verkefna sem sveitarfélagið er ekki bundið af lögum að sinna.
 
Kallar bæjarráð eftir skýrum og tafarlausum svörum frá ráðherra sveitarstjórnarmála um hvernig ríkissjóður hyggst styðja við sveitarfélagið og önnur sveitarfélög í sambærilegri stöðu, m.a. hvað snertir lausnir í húsnæðismálum leik- og grunnskóla, sem og að það tekjutap sem sveitarfélagið hefur orðið fyrir og horfir fram á vegna óvissu um fyrirkomulag lögheimilisskráningar þessa hóps verði bætt með viðunandi hætti.
 

 

Í viðtali við bæjarstjóra Voga í Víkurfréttum þann 4. apríl sl. kom fram að bæjaryfirvöld hafi ítrekað reynt að fá svör frá ríkinu en án árangurs. Segir hann að svo virðist sem ákveðið stjórnleysi sé ríkjandi og málefni íbúa Grindavíkur fái ekki lengur forgang í kerfinu. "Það er eins og stjórnvöld hafi bara ekki lengur úthald til að fylgja verkefninu eftir og telji að nú þegar búið sé að samþykkja uppkaup á fasteignum Grindvíkinga þá sé verkefninu lokið. Það er auðvitað fjarri lagi og það þarf að fylgja þessu verkefni eftir með sómasamlegum hætti." er haft eftir Gunnari Axel Axelssyni bæjarstjóra, sem kallar eftir því að stjórnvöld taki sig taki og halda áfram með verkefnið, enda sé því alls ekki lokið. 

Viðtalið sem birtist í vikulegri útgáfu blaðs Víkurfrétta í dag má einnig nálgast hér á vef fréttamiðilsins: Um 200 Grindvíkingar í Vogum - komið að þolmörkum - segir bæjarstjóri - Víkurfréttir (vf.is)