Þriðjudaginn 24. október hafa á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks blásið til heils dags kvennaverkfalls. Kvennaverkfallið er baráttudagur fyrir jafnrétti á vinnumarkaði og tekur launafólk þátt á eigin forsendum og samkvæmt eigin ákvörðun en þó í samráði við sína stjórnendur.
Eðli máls samkvæmt mun það hafa talsverð áhrif á starfsemi sveitarfélagsins að svo stór og mikilvægur hópur leggi niður störf. Sveitarfélagið Vogar tekur undir meginmarkmið kvennaverkfalls um að hefðbundin kvennastörf jafnt ólaunuð sem launuð, skuli metin að verðleikum og munum við sem vinnuveitendur gera okkar besta til að tryggja að konur og kvár sem starfa hjá sveitarfélaginu geti tekið þátt í baráttudeginum 24. október, að hluta eða í heild.
Í bréfi frá skipuleggjendum kemur fram ríkur skilningur á því að sum starfsemi sé þess eðlis að ekki sé hægt að leggja störf alfarið niður án þess að stofna öryggi og heilsu fólks í hættu.
Starfsemi stofnana sveitarfélagsins þann 24. október verður með eftirfarandi hætti:
Heilsuleikskólinn Suðurvellir: Skólastarf fellur niður
Þjónustumiðstöð: Óbreytt starfsemi
Bæjarskrifstofa: Skert starfsemi
Íþróttamiðstöð /Sundlaug: Opið frá 6:00 til 14:00
Álfagerði: Óbreytt starfsemi
Félagsmiðstöðin Boran: Vetrarfrí
Stóru-Vogaskóli: Vetrarfrí
Frístund: Vetrarfrí