Tónlist er rauður þráður í sögu skólans og er söngur skyldunámsgrein alveg frá upphafi, en var fyrst krafist í landslögum 1907, að kunna nokkur einföld lög, einkum við íslensk ættjarðarljóð. Fyrstu árin kom Guðmundur Guðmundsson í Landakoti vikulega í skólann og kenndi söng, en hann var forsöngvari og orgelleikari Kálfatjarnarkirkju, en kirkjan fékk orgel 1876. Sóknarpresturinn Stefán Thorarensen var söngmaður og sálmaskáld, og frændi hans, Stefán M, sem kenndi fjórða veturinn var söngmaður, lék á orgel og samdi lög. Árið 1879 gaf Jónas Helgason, organisti og söngstjóri, skólanum 14 eintök af bók sinni, Söngvar og kvæði með 2 röddum.
Séra Árni Þorsteinsson kenndi söng um og upp úr aldamótum 1900, segist 1908
hafa varið til söngkennslu hálfri til einni klukkustund tvisvar í viku, ýmist með eða án hljóðfæris.
Viktoría Guðmundsdóttir, sem var skólastjóri og kennari 1921 – 1952 lét börnin syngja í byrjun skóladags og við sérstakar athafnir. Einnig var sungið í stúkunni Ársól, sem Viktoría stýrði.
Stefán Hallsson kenndi við skólann 1934 – 1945 og var um tíma með kór. Lúlla (Guðrún Lovísa), þá nemandi í skólanum, segir svo frá: „Hann var með okkur stelpurnar og nokkra stráka í kór allt svo tvo síðustu vetra mína ... kannski tvisvar í viku ... það var orgel þarna í skólanum... Við sungum bara, Frjálst er í fjallasal og Syngjum við hörpu hljómfagurt lag... jú, líka sálma fyrir jólin. Það var mikil tilbreyting, mikið gaman.“
Stefán var jafnframt organisti í Kálfatjarnarkirkju, m.a. þegar kór kirkjunnar var stofnaður 11. des.1944. Stefáni hefur líklega þótt kennsluaðstæður bágar því hann skrifaði bréf í árslok 1944, á síðasta kennsluvetri sínum, þar sem hann gaf skólanum laun sín þann vetur til að kaupa stóla og borð fyrir yngri deildina – eða nýjan skólabíl. Stefán kenndi eftir þetta 13 ár við Barnaskóla Keflavíkur og var organisti við Njarðvíkurkirkju og við barnamessur í Keflavíkurkirkju. Áratugum síðar var hann við vígslu Stóru-Vogaskóla 1979 og las upp ljóð eftir Davíð Stefánsson.
Þegar Stefán var fluttur burt 1945 skrifaði nýstofnaður kirkjukór Kálfatjarnarsóknar sóknarnefnd og skólanefnd og vildi að ráðinn yrði sameiginlega organisti fyrir kórinn og söngkennari fyrir skólabörnin, það sé kórnum í hag og hann vilji efla söng og tónlist í sókninni. Þá var Lárus Jónsson ráðinn organisti og kom hann vikulega úr Hafnarfirði í skólann til að láta börnin syngja, eins og sést á myndinni.
Kórinn sendi aftur bréf sama efnis 1952, sjö árum seinna, þá hafði engin söngkennsla verið í skólanum. Kvenfélagið Fjóla skoraði svo 1957 á skólanefnd að auglýsa eftir tónlistarkennara við barnaskólann. Einhver ár voru hér söngkennarar, og 1968 – ’69 var það Guðmundur Gilsson. Árið eftir samþykkti nefndin að fela Þóri S. Guðbergssyni skólastjóra og konu hans, Rúnu Gísladóttur að annast söngkennslu í skólanum. Kristján Jónsson kennari mun hafa kennt söng og leikið með á píanó 1975 – 1976. Jón Guðnason í Landakoti, organisti og formaður skólanefndar, var stundakennari á 8. áratug. Kór, sem Ragnheiður Guðmundsdóttir stjórnaði, söng við skólaslit 1980 og Jón lék undir.
Tónlistarskólinn í Vogum var stofnaður 1981 og starfaði til 1986, fyrst til húsa í Hábæ, síðan í Austurkoti. Jakob Hallgrímsson var fyrsti skólastjórinn, síðan Ragnheiður Guðmundsdóttir, þá Gróa Hreinsdóttir og loks Frank Herlufsen. Nokkrir kennarar komu og kenndu hver á sitt hljóðfæri, sumir erlendir, einnig nafnkunnir menn eins og Björn R. Einarsson. Nemendafjöldi fór allt upp í 50 (!) og voru á aldrinum 6 – 74 ára! Kostnaður við skólann þótti of mikill og var hann lagður niður eftir hreppsnefndarkosningar 1986.
Eftir að tónlistarskólinn var lagður niður kenndi Frank Herlufsen, organisti, í rúman áratug tónmennt og á píanó við grunnskólann, og lét börnin syngja, sjá mynd. Svo hafa bekkjakennarar kennt sínum bekk tónmennt. Nokkur ár upp úr aldamótum kenndi Vera Steinsen listgreinar og á hljóðfæri og um svipað leyti kenndi Hrönn byrjendum á píanó.
Tónlistarskóli Stóru-Vogaskóla var stofnaður 2010 og hefur Laufey Waage kennt við skólann í rúmlega hálfu starfi, kennt ófáum nemendum á píanó. Auk hennar er oft annar tónlistarkennari í hlutastarfi og kennir á ýmis hljóðfæri, nú er það Bent Marinóson sem leiðbeinir áhugasömum nemendum.
Sveinn Alfreðsson, sem var skólastjóri 2007 – 08, fékk Bryndísi skólabílstjóra og Sigurð, hennar mann, til að semja skólasöng, sem enn er sunginn. Sveinn kom einnig af stað söngsamveru á sal skólans með nemendum á yngsta- og miðstigi og stundum unglingunum líka. Þorvaldur Örn, náttúrufræðikennari, útbjó glærur með söngtextum, stjórnar þar söng og leikur með á gítar u.þ.b. mánaðarlega. Þátttakendur eru oft um 100 talsins og heyrist hátt í þeim þegar sungið er lagið ”Það má ekki pissa bak við hurð”, einkum viðlagið: ”Þetta fullorðna fólk er svo skrýtið, það er allaf að skamma mann…” Í desember er jólasöngsamvera með yngri bekkjum. Svo syngja allir og ganga kringum jólatré á litlu-jólunum.
Alexandra Chernyshova, sópransöngkona og tónskáld, var kennari við skólann 2017 – 2021. Hún kenndi tónmennt, söng og á hljóðfæri og fékk nemendur til að gera ýmislegt. Hún var með ”bílskúrsband” og barnakór. Kórinn tók þátt í uppfærslu á Ævintýri um norðurljósin í Hörpu og var með á nýjárstónleikum í Ytri-Njarðvíkurkirkju. Nemendur sömdu og fluttu eigin lög, m.a. við texta Gretu Thunberg.
Heimildir: Skrif Stefáns Thorarensen. Kennaratal á Íslandi. Hungurvökugrein. Í Faxa 1990 um skólann og 1995 um afmæli kórs Kálfatjarnarkirkju. Viðtöl við Guðrúnu Lovísu og við nokkra kennara og eldri nemendur, m.a. á fb-síðu Brunnastaðaskóla; við Jóhann Sævar Símonarson (var formaður skólanefndar Tónlistarskólans í Vogum), Ásu Árnadóttur, Alexöndru Chernyshovu, Svövu Bogadóttur, Hilmar Sveinbjörnsson, Hannes B. Hjálmarsson og Laufey Waage.