1405008
Landsnet hf. sækir um framkvæmdaleyfi vegna lagningar Suðurnesjalínu 2. Með umsókninni fylgja ítarleg gögn. Sökum vanhæfis bygginga- og skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins mun Ármann Halldórsson skipulagsfulltrúi Grindavíkur annast úrvinnslu málsins hjá sveitarfélaginu.
Auk nefndarmanna mættu á fundinn þeir Ívar Pálsson hrl. og Ómar Ívarsson skipulagsfræðingur, en þeir eru sveitarfélaginu til ráðgjafar vegna afgreiðslu málsins.
Á fundinn mættu þeir Ingólfur Eyfells og Ólafur Árnason f.h. Landsnets hf. Gestirnir kynntu umsókn fyrirtækisins um framkvæmdaleyfið, sem lagt er fram á fundinum ásamt fylgigögnum. Umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfið er dagsett 14.05.2014. Á fundinum er einnig lagt fram bréf LEX lögmanna, dags. 19.05.2014, undirritað af Karli Axelssyni hrl, en lögmaðurinn gætir hagsmuna eigenda jarðanna Landakots, Hvassahrauns, Heiðarlands Vogajarða (hluta eigenda), Stóru-Vatnsleysu, Minni-Vatnsleysu og Stóra-Knarrarness. Bréfritari tilgreinir að umbjóðendur sínir telji að ekki séu uppfyllt skilyrði til að veita umrætt framkvæmdaleyfi og hafna verði beiðni Landsnets.
Umsókninni ásamt bréfi LEX lögmanna er vísað til umsagnar lögfræðings og skipulagsráðgjafa sveitarfélagsins og lögð sérstök áhersla á skoðað verði hvort hægt sé að veita leyfið áður en málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta er lokið. Samþykkt samhljóða.
Þorvaldur Örn Árnason leggur fram svohljóðandi bókun:
Umhverfis- og skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að framkvæmdaleyfi fyrir lagningu 220kV loft-raflínu eftir endilöngu sveitarfélaginu verði ekki veitt fyrr en:
a)
gengið hefur verið frá samningum við alla viðkomandi landeigendur eða að eignarnám hafi að fullu farið fram á þeim jörðum sem ekki semst um. Landsnet hf. hefur ekki samið við eigendur 7 jarða í sveitarfélaginu að öllu leiti eða hluta til. Eignarnám hefur ekki farið fram og eru landeigendur að stefna ákvörðun ráðherra um leyfi til eignarnáms vegna framkvæmdarinnar til dómstóla. Þær jarðir sem um ræðir eru: Hvassahraun, Stóra-Vatnsleysa, Minni-Vatnsleysa, Landakot, Stóra-Knarrarnes að hluta, Sjónarhóll (Áslákstaðarhverfi) að hluta og Heiðarland Vogajarða að hluta.
b)
niðurstaða liggi fyrir í dóms- og kærumálum vegna leyfisveitingar Orkustofnunar til handa Landsneti í des. 2013 þannig að ljóst sé hvort tilskilin leyfi séu fyrir hendi.
c)
Skipulagsstofnun hefur lokið athugunum sínum á því hvort fyrirliggjandi umhverfismat muni gilda eða hvort gert verði nýtt umhverfismat.
d)
Landsneti hefur tekist að sýna fram á raunverulega þörf fyrir svo afkastamikla línu á næstu árum.
e)
lokið er samanburðarrannsókn á jarðstrengjum og loftlínum af nýjustu gerð á þessari tilteknu leið og gert ráð fyrir að Alþingi muni jafna innflutningsgjöld af efni til jarð- og loftlína áður en til framkvæmda kemur. Minnt er á að Aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga 2008 - 2028 segir orðrétt: “Gert er ráð fyrir að nýjar rafmagnslínur verði lagðar í jörð, þar sem því er við komið.”
Ingþór Guðmundsson tekur undir a-lið bókunar Þorvalds Arnar.
Afgreiðslu málsins er frestað.
Til máls tóku: Allir fundarmenn.