11. fundur ársins 2005 í Skipulags- og byggingarnefnd Vatnsleysustrandarhrepps
haldinn þriðjudaginn 29.11 kl.20.00 að Iðndal 2, Vogum.
Lúðvík Berg Bárðararson, Jón Ingi Baldvinsson, Gísli Stefánsson, Hörður Harðarson,
Gunnar Helgason og Kristján Baldursson byggingarfulltrúi, sem jafnframt ritar
fundargerð.
1. mál Vegna frestunar á byggingarleyfi fyrir Suðurgötu 2a Vogum var
Ásthildi Kristjánsdóttur Brekkugötu 11, sérstaklega send grenndarkynning 3.
11. 2005 þar sem henni var gefinn kostur á að gera skriflegar athugasemdir
við byggingaráform á lóðinni Suðurgötu 2a.
Bréf frá henni barst 16. 11. 2005 þar sem hún gerir nokkrar athugasemdir
meðal annars í 6. lið þar sem stendur eftirfarandi: “Í dag 14. 11. er búið að
slá upp fyrir grunni á lóðinni, en samkvæmt lögum um grenndarkynningu,
sem mér var kynnt bréflega dags. 3.11, er veittur 4 vikna frestur til að koma
með athugasemdir, eða til 1. 12. Þessi frestur virðist ekki ætla að vera virtur
af lóðareiganda og fer ég fram á að allar framkvæmdir verði stöðvaðar á
meðan að öðrum kosti neyðist ég til að vísa málinu til áfríunarnefndar
skipulagsmála í samráði við minn lögfræðing.”
Byggingarfulltrúi svaraði þessu bréfi dags. 18. 11.2005. Þar segir meðal
annars: “Vegna 6. liðar í athugasemdalistanum vill skipulags og
byggingarfulltrúi taka skýrt fram og endurtaka það sem var munnlega tjáð að
framkvæmdir á lóðinni Suðurgata 2a voru stöðvaðar með bréfi til viðkomandi
eiganda lóðarinnar 3. 11. 2005. Uppsláttur fyrir grunni er því gerður án
byggingarleyfis og þar af leiðandi á ábyrgð eigandans.”
Í bréfi sínu mótmælir Ásthildur fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum á
lóðinni Suðurgötu 2a. af eftirfarandi ástæðum:
Bein tilvitnun í bréfið:
1. Lóðin virðist ekki hafa verið auglýst laus til umsóknar eins og segir i
reglum um lóðaúthlutanir og þar af leiðandi verið úthlutað í kyrrþey.
2. Þegar ég keypti Brekkugötu 11 í maí s.l. var mér sagt af fyrri eigendum
og staðfest af 3 nágrönnum að ekki yrði byggt á viðkomandi lóð, þar sem
hún væri of lítil og að fyrirhugað væri að gera þar bílastæði fyrir
leikskólann vegna stækkunar í framtíðinni.
3. Það virðist vera að einhver sjái ofsjónir yfir því að húsbíll, kerrur og
hjólhýsi hafi staðið þarna X tíma í sumar.
4. Mér er spurn hvað er að því að gera þarna bílastæði fyrir þá sem hafa ekki
aðst. til að hafa viðk. ökutæki sín á einka lóðum eða leggja í stuttan tíma?
5. Ég persónulega kom með tillögur við nágranna bæði við Brekkugötu og
Suðurgötu að gera mætti “lokal” garðaðstöðu s.s. fyrir fjölsk., grill og eða
fjölskylduvænt útisvæði fyrir umræddar götur svipað og fyrirfinnst víða
við blokkir í úthverfum Reykjavíkur. Það finnst mér frábær hugmynd og
væri til í að leggja mitt af mörkum (þess vegna
í sjálfboðavinnu) þar sem ég er orðin óvinnufær og hef hugsað mér að búa
hér í nánustu framtíð.”
Svör skipulags og byggingarnefndar við athugasemdum Ásthildar
Kristjánsdóttur:
1. Úthlutun lóðarinnar er þannig til komin að viðkomandi átti spildu af
lóðinni Suðurgata 2. Að samanlagðri þeirri spildu og opna svæðisins
Suðurgötu 2a varð til nægjanleg stór íbúðarhúsalóð. Hreppsnefnd hafði
því ekki möguleika á að auglýsa lóðina til umsóknar þar sem eigandi
spildunnar hafði skapað sér forkaupsrétt að lóðinni.
2. Þetta opna svæðið var skarð í íbúðarhúsagötu, sem ekki er til
deiliskipulag yfir. Engin áform lágu fyrir um það að svæðið skildi vera
bílastæði fyrir leikskólann eða fyrir íbúa hverfisins.
3. Nýting á svæðinu undir kerrur, húsbíla og hjólhýsi hafði ekki áhrif á
ráðstöfun lóðarinnar undir einbýlishús.
4. Skipulags og byggingarnefnd telur að þegar lóðin var orðin nægilega stór
fyrir einbýlishús þá væri einboðið að nýta hana þannig þar sem um
íbúðarhúsagötu var að ræða.
5. Svæði fyrir samkomur íbúa í Vogum eru fyrir hendi annars staðar t.d. í
Aragerði.
Eftir að hafa farið yfir athugasemdir grenndarkynningarinnar telur Skipulags
og byggingarnefnd ekki nægjanlegan rökstuðning fyrir því að falla frá
byggingarleyfi á lóðinni.
Byggingarnefnd staðfestir því byggingarleyfi á Suðurgötu 2a til Þórðar
Guðmundssonsar og Maríu Gunnarsdóttur, samræmist lögum nr. 73/1997.
Nefndin átelur lóðarhafa fyrir að hefja framkvæmdir án tilskilinna leyfa.
2. mál Umsókn Pálma Stefánssonar um byggingarleyfi á lóðinni
Miðdalur 7 Samþykkt með fyrirvara um samþykki eldvarnareftirlits.
Samræmist lögum nr 73/1997
3. mál Umsókn Pálma Stefánssonar um viðurkenninng sem
múrarameistari í Vatnsleysustrandarhreppi. Nefndin samþykkir umsóknina.
4. mál Trésmiðja Snorra Hjaltasonar ehf sækir um stöðuleyfi fyrir
vinnubúðahús á leiksvæði í enda Miðdals.
Nefnin samþykkir stöðuleyfi til eins ár.
5. mál Bráðabirgðaskýli Hraunholti 1
Hreppsnefnd vísaði máli Eignarhaldsfélagsins Norma, sem tekið var fyrir á
síðasta fundi aftur til Skipulags og byggingarnefndar og beindi þeim tilmælum til
nefndarinnar að endurupptaka málið, bókun byggingarnefndar 25. 10. 2005 um
samþykki á byggingarleyfi fyrir bráðabirgðaskýli er því fallin úr gildi.
Vegna gagnaöflunar og undirbúngs frestar nefndin afgreiðslu málsins.
Önnur mál
Kristín Gísladóttir Sléttahraun 21 sækir um byggingarleyfi að Heiðardal 4
Samkvæmt teikningum eftir Teiknistofuna Kvarði.
Samþykkt með fyrirvara um samþykki eldvarnareftirlits samræmist lögum nr.
73/1997
Teiknistofan Tak sækir um endurnýjað byggingarleyfi fyrir Akurgerði 1 og 1a
fyrir hönd lóðarhafa samkvæmt breyttum teikningum sem felst aðallega í því að
staðsteypa húsið í stað þess að hlaða það úr plastkubbum.
Samþykkt með fyrirvara um samþykki eldvarnareftirlits, samræmist lögum nr
73/1997
Fundi slitið kl 21.50