88. fundur
28. ágúst 2013 kl. 18:00 - 20:00 í Álfagerði
Nefndarmenn
Oddur Ragnar Þórðarsonforseti bæjarstjórnar
Kristinn Björgvinsson
Sveindís Skúladóttir
Björn Sæbjörnsson
Erla Lúðvíksdóttir
Ingþór Guðmundsson
Marta G. Jóhannesdóttir
Fundargerð ritaði:Ásgeir EiríkssonBæjarstjóri
Dagskrá
1.Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga - 154
1306004F
Fundargerðin er samþykkt samhljóða með sjö atkvæðum.
Til máls tóku: Oddur Ragnar.
2.Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga - 155
1307002F
Fyrir tekið 5. mál (1308011), kaup á dráttarvél. Fulltrúi E-listans leggur fram svohljóðandi bókun: "Á 155. fundi bæjarráðs var leitað afbrigða til að taka á dagskrá 5. lið ”kaup á dráttarvél fyrir sveitarfélagið“ og vísað í framkomið tilboð vegna vélakaupa undirritað af bróður formanns bæjarráðs. Afgreiðsla bæjarráðs virðist vera í andstöðu við gildandi innkaupareglur sveitarfélagsins, í það minnsta er fulltrúum minnihlutans ekki kunnugt um að leitað hafi verið tilboða víðar, enda kemur slíkt hvergi fram. Afgreiðsla bæjarráðs er í andstöðu við 18. grein innkaupareglna sem fjalla um hæfis og siðareglur en hún hljóðar svo með leyfi forseta. ”Enginn starfsmaður Sveitarfélagsins Voga eða fulltrúi í nefnd, ráði eða stjórn á vegum sveitarfélagsins má eiga aðild að ákvörðunum um innkaup, sem varða aðila sem þeir eru náskyldir eða í hagsmunatengslum við. Ber starfsmanni eða nefndarfulltrúa að hafa frumkvæði að því að gera viðvart um ástæður er kunna að valda vanhæfi hans“ Ekki er að sjá á fundargerð 155. fundar bæjarráðs að formaður hafi vakið máls á tengslum sínum við bróður sinn, en málið samt sett á dagskrá. Viljum við benda á að það er ekki á fjárhagsáætlun þessa árs kaup á slíkri vél og það er öllum hér inni kunnugt um, hvar á að taka peninga í þetta og hvað verður þá um áætlanir næsta árs? Við í E-lista leggjum til að farið verði í þarfagreiningu og útboð/verðkönnun á vélakosti sveitarfélagsins og í kjölfar þeirrar vinnu verði ákveðið við gerð fjárhagsáætlunar 2014 hvort svigrúm sé þar til að kaupa á slíku tæki."
Forseti bæjarstjórnar óskar bókað að leitað hafi verið eftir tilboðum í dráttarvél og fylgibúnað í mars 2012 og október 2012. Jafnframt liggur fyrir þarfagreining. Á fundi bæjarráðs var samþykkt að fela bæjarstjóra að leita leiða til fjármögnunar kaupa á nýrri dráttarvél. Tillaga bæjarstjóra er að fjármagna kaupin með óráðstöfuðu eigin fé bæjarsjóðs. Samþykkt að ganga að tilboði Kraftvéla um kaup á dráttarvél ásamt fylgihlutum, að fjárhæð 12,8 m.kr. Bæjarstjóra jafnframt falið að leggja fram viðauka við fjárhagsáætlun á næsta fundi bæjarráðs. Samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur.
Fundargerðin er samþykkt samhljóða með sjö atkvæðum.
Til máls tóku: Oddur Ragnar, Ingþór, Kristinn
3.Beiðni um lausn frá störfum
1308025
Inga Sigrún Atladóttir bæjarfulltrúi er flutt úr sveitarfélaginu og hefur því misst seturétt sinn í bæjarstjórn.
Með fundarboði fylgir tölvupóstur frá Ingu Sigrúnu Atladóttur, dags. 18.08.2013, svohljóðandi: Þar sem ég hef flutt lögheimili mitt úr sveitarfélaginu hef ég ekki lengur seturétt í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga. Ég vil þakka öllum íbúum sveitarfélagsins kærlega fyrir ánægjulegt samstarf, ég kveð ykkur með mikilli eftirsjá en einnig með stolti yfir öllum þeim málum sem ég hef barist fyrir þau 7 ár sem ég hef setið í bæjarstjórninni. Með vinsemd og virðingu, Inga Sigrún Atladóttir fv. forseti bæjarstjórnar í Sveitarfélaginu Vogum.
Bæjarstjórn þakkar Ingu Sigrúnu samstarfið og óskar henni velfarnaðar í þeim verkefnum sem hún nú hefur tekið sér fyrir hendur.
Bæjarstjórn samþykkir að fyrsti varamaður H-listans, Björn Sæbjörnsson, taki nú sæti sem aðalmaður og fulltrúi H-listans í bæjarstjórn. Jafnframt er samþykkt að Jón Elíasson verði fyrsti varamaður H-listans í bæjarstjórn. Samþykkt samhljóða.
Til máls tóku: Oddur Ragnar, Ingþór.
4.Endurskoðun samþykkta sveitarfélagsins Voga
1303038
Samþykktir lagðar fram að nýju til samþykktar eftir yfirferð og ábendingar Innanríkisráðuneytisins.
Lagðar fram að nýju samþykktir sveitarfélagsins Voga, eftir yfirferð hjá Innanríkisráðuneytinu. Bæjarstjórn samþykkir samþykktirnar eins og þær eru framlagðar, og óskar endanlegrar staðfestingar Innanríkisráðuneytisins á þeim.
Samþykkt samhljóða með sjö atkvæðum.
Til máls tóku: Oddur Ragnar.
Að aflokinni dagskrá bæjarstjórnarfundar undirrituðu Helle Arve, forseti bæjarstjórnar Fjaler í Noregi og Oddur Ragnar Þórðarson, forseti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga samstarfsyfirlýsingu um vinabæjarsamstarf sveitarfélaganna. Auk hans var Ola Hovland bæjarstjóri Fjaler gestur fundarins. Að lokinni undirskrift bauð Norræna félagið í Vogum til kaffisamsætis í tilefni þess að stofnað hefur verið til vinabæjartengslanna.
Til máls tóku: Oddur Ragnar.