Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga

228. fundur 13. desember 2024 kl. 17:30 - 18:04 á bæjarskrifstofu
Nefndarmenn
  • Birgir Örn Ólafsson forseti bæjarstjórnar
  • Björn Sæbjörnsson varaforseti
  • Eva Björk Jónsdóttir aðalmaður
  • Andri Rúnar Sigurðsson aðalmaður
  • Inga Sigrún Baldursdóttir aðalmaður
  • Friðrik V. Árnason aðalmaður
  • Eðvarð Atli Bjarnason
Starfsmenn
  • Guðrún P. Ólafsdóttir Bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún P. Ólafsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá

1.Ráðning bæjarstjóra síðari hluta kjörtímabils 2022 - 2026

2411045

Tekið fyrir 4. mál á dagskrá 415. fundar bæjarráðs þann 4.12.2024: Ráðning bæjarstjóra síðari hluta kjörtímabils 2022 - 2026.



Lagður fram undirritaður ráðningarsamningur við Guðrúnu P. Ólafsdóttur, dags. 4.12.2024, með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórnar



Afgreiðsla bæjarráðs:

Bæjarráð samþykkir framlagðan ráðningarsamning samhljóða og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn. Bæjarráð þakkar við þessi tímamót Guðrúnu fyrir vel unnin störf og bindur vonir við áframhaldandi farsæla samvinnu.
Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum. Bæjarstjórn tekur undir með bæjarráði og þakkar Guðrúnu fyrir vel unnin störf og bindur vonir við áframahaldandi gott samstarf.

Til máls tóku:
GPÓ

2.Gjaldskrá Sveitarfélagsins Voga 2025

2412012

Lögð fram gjaldskrá Sveitarfélagsins Voga 2025.
Guðrún P. Ólafsdóttir, bæjarstjóri, fór yfir helstu atriði framlagðrar gjaldskrár.
Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

Til máls tóku:
GPÓ

3.Fjárhagsáætlun 2025 - 2028

2407024

Tekið fyrir 2. mál á dagskrá 416. fundar bæjarráðs þann 9.12.2024: Fjárhagsáætlun 2025 - 2028



Lögð fram fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Voga fyrir árið 2025 og langtímaáætlun 2026-2028. Ásta Friðriksdóttir, verkefnastjóri reikningshalds og umbóta situr undir þessum dagskrárlið.



Afgreiðsla bæjarráðs:

Bæjarráð samþykkir samhljóða að vísa fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Voga 2025 og þriggja ára áætlun 2026-2028 til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Guðrún P. Ólafsdóttir, bæjarstjóri, fór yfir helstu atriði framlagðrar tillögu að fjárhagsáætlun 2025 og þriggja ára áætlun 2026-2028
Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum

Bókun bæjarstjórnar:
Við gerð fjárhagsáætlunar 2025-2028 er tekið mið af bæði ytri og innri forsendum, meðal annars stöðu og horfum í efnahagsmálum og íbúaþróun í sveitarfélaginu. Líkt og fyrri ár ríkir talsverð óvissa um þróun ytri aðstæðna og framvindu efnahags- og kjaramála á næstu misserum og árum. Óvissan snýr meðal annars að verðbólguþróun, kjarasamningum og alþjóðlegri efnahagsþróun. Til viðbótar bætist óvissa vegna áhrifa jarðhræringa á Reykjanesi. Óhætt er að segja að ytri aðstæður geta haft mjög mikil áhrif á rekstur sveitarfélagsins á hverjum tíma.

Íbúum í Sveitarfélaginu Vogum hefur fjölgað um tæp 20% eða um 295 manns frá ársbyrjun 2024 og á slík fjölgun sér vart fordæmi í sögunni. Í ársbyrjun voru íbúar 1.500 talsins en í byrjun desember mánaðar eru íbúar 1.795 talsins. Aðseturskráðir Grindvíkingar í sveitarfélaginu eru 66 eða 3,7% af íbúum sveitarfélagsins. Framan af ári voru aðseturskráðir Grindvíkingar hátt í 10% en hlutfallið lækkaði skart þegar grunn- og leikskóli hófust eftir sumarfrí. Ekkert sveitarfélag getur rekið sig með eðlilegum hætti, þegar svo hátt hlutfall íbúa greiðir ekki útsvar til reksturs sveitarfélagsins. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi um 11,7%.
Unnið verður markvisst að því á árinu 2025 að tryggja að íbúavöxtur sveitarfélagsins verði sjálfbær næstu ár enda ber sveitarfélaginu skylda að fylgja 64. gr. sveitarstjórnarlaga sem kveður á um að sveitarstjórn beri,“að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum“.
Á árinu hefur enn á ný sannast hversu dýmætur mannauður sveitarfélagsins er, en samhliða örri íbúafjölgun reynir talsvert á lausnamiðað hugarfar sem starfsfólk hefur svo sannarlega sýnt á árinu. Í Stóru-Vogaskóla var til að mynda stofnað lausnarteymi starfsmanna á vordögum vegna fullnýtts húsnæðis og má nú með sanni segja að hver fermetri sé nýttur. Það er því gleðiefni að geta upplýst um að á næsta ári er fyrirhugað að hefja hönnun á viðbyggingu við grunnskólann og standa vonir til að uppbygging geti hafist eigi síðar en árið 2026. Þá er undirbúningsvinna hafin varðandi stækkunarmöguleika eða tilflutning leikskóla á næstu árum.
Viðsnúningur hefur orðið á rekstri sveitarfélagsins undanfarin ár þar sem hagrætt hefur verið í öllum þáttum rekstrar á sama tíma og tekjur hafa aukist í takt við hagsveiflu. Áætlað er að sveitarfélagið uppfylli að nýju jafnvægisregluna árið 2025. Það þýðir að áætlað er að þriggja ára uppsöfnuð rekstrarniðurstaða A hluta og samanlagðs A og B hluta rekstrar verði jákvæð á árinu 2025. Bæjarstjórn ákvað að þessu sinni að lækka hlutfall A-hluta fasteignaálagningar úr 0,43% í 0,42%. Það er vilji bæjarstjórnar að leitað verði leiða til að hlutfallið geti orðið lægra í framtíðinni. Á sama tíma er bæjarstjórn meðvituð um hversu berskjaldaður reksturinn er fyrir óvæntum skakkaföllum eins og sagan hefur sýnt.
Markmiðið er að sveitarfélagið uppfylli ávallt skilyrði laga um fjárhagslega sjálfbærni og jafnvægi í rekstri samhliða nauðsynlegri innviðauppbyggingu.
Áætlað er að rekstrartekjur samstæðu árið 2025 nemi ríflega 2,6 milljörðum króna og rekstrargjöld samstæðu nemi 2,3 milljörðum króna. Rekstrarniðurstaða samstæðu er áætluð að nemi tæplega 98 m.kr. Þá er áætlað að veltufé frá rekstri samstæðu verði 258 m.kr. eða sem nemur 9,8% af heildartekjum. Skuldaviðmið samstæðu á árslok 2025 er áætlað að verði 67,9%
Heildareignir A- og B-hluta eru áætlaðar um 3,0 milljarðar króna í árslok 2025 og skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar 2,2 millarðar króna.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2025:
Rekstrarniðurstaða A-og B-hluta verði jákvæð um 97,7 milljón króna eða 3,7% af tekjum.
Framlegðarhlutfall A- og B-hluta verði 10,9% á árinu 2025.
Rekstrarniðurstaða A-hluta verði jákvæð um 78,3 milljónir króna eða 3,1% af tekjum.
Skuldir og skuldbindingar A- og B-hluta (skuldahlutfall) verði 83,4% í árslok 2025.
Skuldaviðmið samkv. reglugerð 502/2012 verði 67,9% í árslok 2025.
Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta verði 258 milljónir króna eða 9,8% af heildartekjum.
Launahlutfall verði 52,0 % á árinu 2025 (51,8% í útkomuspá 2024).
Útsvarsprósenta verði óbreytt, eða 14,97%.
Álagningarreglur fasteignagjalda haldast óbreyttar að undanskildu álagningarhlutfalli A-stofns fasteignaskatts sem lækkar úr 0,43% í 0,42%
Almennt er miðað við að gjaldskrár fylgi verðlagsþróun, þ.e. að þjónustugjöld haldist óbreytt að raungildi á milli ára (4%).
Áætlaðar fjárfestingar A-hluta nemi 350 milljónum króna á árinu 2025 eða 14% af áætluðum heildartekjum.

Fjárfestingaáætlun ársins 2025 auk áætlunar fyrir árin 2026-2028 er lögð fram samhliða rekstraráætlun. Auk áætlana um uppbyggingu grunnskóla- og leikólahúsnæðis næstu ára, má nefna endurnýjun gatna, göngu- og hjólastíg yfir Vogastapa, áframhaldandi rakaviðgerðir í Stóru-Vogaskóla og uppbyggingu í íþróttamiðstöð. Áfram verður unnið að endurnýjun gatnalýsingar og að bættu umferðaröryggi. Þá er ótalið að áfram verður unnið að leit að nýju varavatnsbóli fyrir sveitarfélagið.

Til máls tóku:
GPÓ.

4.Kosning í ráð og nefndir 2024

2401054

Lögð fram tillaga að breytingu á skipan í nefndir og bæjarstjórn. Annas Jón Sigmundsson hefur flutt lögheimili sitt úr sveitarfélaginu og víkur því sæti úr fræðslunefnd, heilbrigðisnefnd Suðurnesja, úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs Suðurnesja og sem þriðji varamaður D-lista í bæjarstjórn.



Í hans stað er lagt til að tilnefndur verði í fræðslunefnd Karel Ólafsson, í heilbrigðisnefnd Suðurnesja verði Hólmgrímur Rósenbersson tilnefndur og í úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóð Suðurnesja verði Karel Ólafsson tilnefndur. Sem varamaður í stað Karels í fræðslunefnd er lagt til að tilnefnd verði Guðrún Sigurðardóttir. Þórunn Brynja Júlíusdóttir verður þriðji varamaður D lista í bæjarstjórn.



Þórunn Brynja Júlíusdóttir víkur sem varamaður úr fræðslunefnd. Í hennar stað er lagt til að Sigurjón Rafn Rögnvaldsson sem verði tilnendur sem varamaður í fræðslunefnd.



Lögð fram tillaga að breytingu í fræðslunefnd. Jóngeir H. Hlinason, L-lista, hefur flutt lögheimili sitt úr sveitarfélaginu og víkur því sæti í fræðslunefnd. Lagt er til að Inga Helga Fredriksen, sem nú er varamaður, taki sæti sem aðalmaður í fræðslunefnd í stað Jóngeirs og að varamaður verði Eðvarð Atli Bjarnason.
Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.
Bæjarstjórn þakkar Annasi og Jóngeiri fyrir farsæl störf í þágu sveitarfélagsins.

5.Ráðning sviðsstjóra

2412011

Lögð fram tilboð frá ráðningarstofum vegna umsjónar með ráðningu í nýtt starf sviðsstjóra.
Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Lagt er til að málinu verði frestað.
Samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

6.Stofn- og aðbúnaðarstyrkir dagforeldra

2411040

Tekið fyrir 5. mál á dagskrá 415. fundar bæjarráðs þann 4.12.2024: Stofn- og aðbúnaðarstyrkir dagforeldra



Lögð fram drög að reglum um stofn- og aðbúnaðarstyrki dagforeldra auk minnisblaðs verkefnastjóra á mennta- og tómstundasviði Suðurnesjabæjar

Afgreiðsla bæjarráðs

Bæjarráð samþykkir framlögð drög og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.
Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

7.Samningur um launavinnslu

2412002

Tekið fyrir 9. mál á dagskrá 415. fundar bæjarráðs þann 4.12.2024: Samningur um launavinnslu



Lögð fram drög að framlengingu launavinnslusamnings við Suðurnesjabæ.

Afgreiðsla bæjarráðs

Bæjarráð samþykkir samhljóða framlögð drög og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.
Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

8.Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga - 416

2412003F

Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Lagt fram.

9.Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga - 415

2412001F

Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Lagt fram.

10.Fræðslunefnd Sveitarfélagsins Voga - 111

2411005F

Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Lagt fram.

11.Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 94

2409008F

Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Lagt fram.

12.Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 93

2411007F

Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Lagt fram.

13.Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 92

2405008F

Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Lagt fram.

14.Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 91

2402002F

Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Lagt fram.

15.Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 90

2312004F

Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Lagt fram.

16.Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 89

2307003F

Afgreiðsla bæjarstjórnar:
Lagt fram.

Fundi slitið - kl. 18:04.

Getum við bætt efni síðunnar?