Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga

26. fundur 06. nóvember 2007 kl. 18:00 - 20:45 Hafnargötu 17-19

Fundur haldinn í bæjarstjórn þriðjudaginn 6. nóvember 2007, kl. 18.00 að
Hafnargötu 17- 19.
Mættir: Anný Helena Bjarnadóttir, Hörður Harðarson, Inga Rut Hlöðversdóttir,
Bergur Álfþórsson, Inga Sigrún Atladóttir, Sigríður Ragna Birgisdóttir og Íris Bettý
Alfreðsdóttir. Jón Elíasson kom á fundinn kl. 19.54.
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri ritar fundargerð.
Anný Helena Bjarnadóttir, fyrsti varaforseti stýrir fundi í fjarveru forseta
bæjarstjórnar.
Forseti leitar afbrigða til að taka á dagskrá kjör fulltrúa í stjórn SSS og Menningarráð
Suðurnesja.
Samþykkt að taka á dagskrá undir lið 6, þannig að mál á dagskrá verði alls 7.
1. Fundargerð 22. fundar Skipulags- og bygginganefndar.
Bergur vekur athygli á vanhæfi sínu til að taka þátt í afgreiðslu 8. liðar
fundargerðarinnar.
Inga Rut vekur athygli á vanhæfi sínu til að taka þátt í afgreiðslu 7. liðar
fundargerðarinnar.
Íris Bettý tekur til máls varðandi 15. mál og leggur til að byggingafulltrúa verði falið
að gera úttekt á leyfisveitingum og framkvæmdum varðandi Breiðagerði 3 og skili
skriflegri greinargerð til bæjarstjórnar.
Sigríður Ragna leggur til að ítrekuð verði tilmæli til skipulags- og bygginganefndar
um að vanda til verka við ritun fundargerða.
Tillögurnar samþykktar samhljóða.
Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
2. Fundargerðir 31. og 32. fundar bæjarráðs.
Íris Bettý leggur fram eftirfarandi bókun varðandi 12. mál í fundargerð 31. fundar.
Fulltrúar H-lista leggja til að leitað verði allra leiða til að uppfylla ósk leikskólastjóra
um álagsgreiðslu fyrir þann tíma sem sótt er um.

2
Inga Sigrún leggur fram eftirfarandi bókun varðandi 14. mál í fundargerð 31. fundar.
Á bæjarráðsfundi þann 9. október var upp til afgreiðslu bréf þar sem fallið var frá
samningi við Trésmiðju Snorra Hjaltasonar um að taka miðbæjarkjarna
sveitarfélagsins í alverktöku. Erindi þetta var ekki á dagskrá fundarins en fyrir honum
lá að taka afstöðu til bréfs sem þegar var búið að skrifa. Bréfið innihélt fullyrðingar,
allt að því ásakanir sem ég gat ekki staðið við. Þess vegna sat ég hjá við afgreiðslu
málsins.
Inga Sigrún leggur til varðandi 15. mál í fundargerð 31. fundar að afgreiðslu verði
breytt þannig að styrkurinn nái ekki til íslenskukennslu fyrir erlenda nemendur, heldur
móðurmálskennslu.
Bæjarstjóri leggur fram þá breytingatillögu að málinu verði vísað til fræðslunefndar til
umfjöllunar.
Forseti ber breytingatillöguna upp til atkvæða.
Tillagan er samþykkt samhljóða.
Inga Sigrún leggur fram eftirfarandi bókun varðandi 4. mál.
Gaman að sjá hve mikla vinnu þeir hjá Norðuráli hafa lagt í að hanna ímynd fyrir
fyrirhugað álver í Helguvík. Það má benda á að álver á Keilisnesi gæti verið eins langt
komið ef forsvarsmenn bæjarfélagsins hefðu lagt eins mikið í ímyndavinnu og þeir hjá
Norðuráli. Þeir eru búnir að fara um og tala við hagsmunaaðila og ráðamenn til að
greiða leiðina. Það væri þó ekki að E- listinn sem telur sig standa undir merkjum
íbúalýðræðis sé að vinna gegn samþykktum íbúafundarins í Vogum þar sem mikill
meirihluti fundarmanna var með byggingu álvers á Keilisnesi.
Anný Helena vill ítreka að viðræður við álframleiðendur vegna hugsanlegs álvers á
Keilisnesi sé í ákveðnu ferli og sé ekki mál sem hlaupið verði að.
Inga Sigrún leggur fram eftirfarandi bókun varðandi 9. mál um drög að samkomulagi
við VBS banka um uppbyggingu Grænuborgarsvæðis.
Þau drög sem liggja nú fyrir er afrit af eldri samningi sem fyrri meirihluti gerði um
uppbyggingu svæðisins að því slepptu að nú fellur sveitarfélagið frá úthlutun 24 lóða
á svæðinu. Okkur í H- listanum þykir afar mikilvægt að bærinn fái einhverjar lóðir til
úthlutunar því annars gæti farið svo að lóðirnar fari allar til verktaka og einstaklingar
geti því ekki tryggt sér lóðir til að byggja á eigin hús. Þar sem nú hafa verið teknar út
úr skipulagi nokkrar lóðir sem fyrirhugað var að úthluta fljótlega lítur nú út fyrir að
engar lóðir verði hér til úthlutunar til einstaklinga á næstunni og teljum við það mikið
áhyggjuefni.
Vegna umræðu um fundargerðir nefnda vill Hörður árétta að vandað sé til verka við
ritun fundargerða og að fulltrúar í nefndum skrifi ekki undir fundargerðir sem þeir eru
ekki sáttir við.
Íris Bettý leggur fram eftirfarandi bókun varðandi 11. mál um í fundargerð 32. fundar
bæjarráðs.

3
Nú þegar skólastjórnendur berjast við að halda í þá starfsmenn sem eftir eru þá leggur
bæjarstjóri til að hækka matinn, okkur finnst svo sannarlega ekki vera rétti tíminn til
að þeirra aðgerða nú að taka af þau fríðindi sem starfsmenn skólans hafa notið um
árabil, frekar að gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda áfram í þá starfsmenn
sem enn halda tryggð við skólann sinn þrátt fyrir allt sem á undan er gengið. Ennþá
sér ekki fyrir endann á því, enn erum við að missa kennara frá störfum. Ég get því
sannfæringar minnar vegna ekki greitt þessari tillögu atkvæði mitt.
Bergur vill að fram komi að gjald það sem starfsfólk skólans er að greiða fyrir
máltíðir hefur ekki breyst síðan 1999 og sú tillaga sem lögð er fram geri ráð fyrir að
gjaldið verði 60% lægra en kjarasamningur gerir ráð fyrir.
Sigríður Ragna leggur til að sett verði upp merki við bæjarmörkin, sem verði vel úr
garði gerð, t.d. sem nokkurskonar listaverk sem unnið verði á grunni skjaldarmerkis
sveitarfélagsins.
Bæjarstjóri upplýsir að búið sé að vinna skilti sem verða sett upp við bæjarmörkin á
næstu misserum.
Bæjarstjórn tekur undir tillöguna og felur atvinnumálanefnd að vinna málið áfram og
leggja fram tillögu um framkvæmd með kostnaðaráætlun.
Fundargerðirnar eru að öðru leyti samþykktar samhljóða.
Til máls tóku: Inga Sigrún, Íris Bettý, Sigríður Ragna, Hörður, Bergur, Inga Rut,
Róbert og Anný Helena.
3. Endurskoðuð fjárhagsáætlun 2007.
Bæjarstjóri fer yfir helstu atriði endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar Sveitarfélagsins
Voga og stofnanna bæjarsjóðs.
Áætlað er að heildartekjur samstæðunnar aukist um 219% frá upphaflegri áætlun
2007. Sú hækkun er að mestu tilkomin vegna sölu á hlut sveitarfélagsins í Hitaveitu
Suðurnesja hf. Söluhagnaður er 1.071.900.000 þegar tekið hefur verið tillit til
fjármagnstekjuskatts.
Þar sem óvenjulegu liðirnir vega mjög þungt í áætluninni, er í greinargerð með
áætluninni reynt að gera grein fyrir breytingum án þess liðar eftir því sem kostur er.
 Heildarútgjöld án fjármagnsliða hækka um 3% frá upphaflegri áætlun.
o Gert er ráð fyrir að launakostnaður hækki um 2% frá upphaflegri
áætlun ársins 2007.
o Gert er ráð fyrir að annar rekstrarkostnaður hækki um 6% frá
upphaflegri áætlun ársins 2007.

 Heildartekjur án óvenjulega liða og fjármagnsliða hækka um 4% frá
upphaflegri áætlun.

4
Rekstur samstæðunnar hefur að mestu verið í samræmi við áætlun. Rekstrarniðurstaða
án fjármagnsliða og óvenjulegra liða er áætluð jákvæð um tæplega 2 milljónir
samanborið við áætlaðan halla upp 2,5 milljónir í upphaflegri áætlun.
Samkvæmt upphaflegri fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 110 milljóna lántöku á árinu,
en reyndin er að ný lán á árinu eru 45 milljónir. Það lán var að mestu nýtt til að greiða
fyrir halla ársins 2006.
Rekstrarniðurstaða samstæðunnar með fjármagnsliðum, en án áhrifa af sölu hlutafjár
er áætluð neikvæð um 37 milljónir, samanborið við áætlaðan halla upp á 41 milljón í
upphaflegri áætlun. Rekstarniðurstaðan er því 9% betri en áætlað var.
Rekstrarniðurstaða samstæðunnar með fjármagnsliðum og óvenjulegum liðum er
jákvæð um 1.109 milljónir samanborið við áætlaðan halla upp á tæplega 41 milljón.
Veltufé frá rekstri samstæðunnar er áætlað að verði kr. 78,5 milljónir, samanborið við
70 þúsund kr. í upphaflegri áætlun.
Rekstrarniðurstaða málaflokka (A-hluta) án fjármagnsliða og óvenjulegra liða er
áætluð neikvæð um 17,5 milljónir, samanborið við áætlaðan halla upp á 26,5 milljónir
í fyrri áætlun. Rekstrarniðurstaðan batnar þannig um tæpar 9 milljónir frá fyrri áætlun.
Reksturinn hefur gengið betur en áætlað var hvort sem er með eða án fjármagnsliða
og óvenjulegra liða. Samstilltar aðgerðir bæjarstjórnar og starfsmanna sveitarfélagsins
eru að skila árangri. Nauðsynlegt er að halda áfram á þessari braut svo nái megi
jafnvægi í rekstri. Skatttekjur sveitarfélagsins eru að vaxa með auknum íbúafjölda, en
mikilvægt er að halda útgjaldavexti niðri svo jafnvægi náist í samræmi við 3 ára
áætlun bæjarstjórnar.
Meirihluti E- listans í bæjarstjórn vill vekja á því athygli að rekstur sveitarfélagsins
hefur gengið betur en upphafleg áætlun gerði ráð. Greinilegt er að starfsmenn
bæjarsins hafa tekið höndum saman um að bæta rekstur sveitarfélagsins. Færir
meirihluti E- listans þeim þakkir fyrir vel unnin störf.
Forseti ber endurskoðaða fjárhagsáætlun ársins 2007 upp til atkvæða.
Áætlunin er samþykkt samhljóða.
4. Samþykkt um breytingu á samþykkt um stjórn og fundarsköp
Sveitarfélagsins Voga, seinni umræða.
Fulltrúum H- lista finnst óeðlilegt að bæjarstjóri þurfi að staðfesta ráðningu annarra
starfsmanna, og telja það fela í sér vantraust á forstöðumenn stofnanna.
Fulltrúar H- lista leggja fram breytingatillögu um að orðin ,,...að fenginni staðfestingu
bæjarstjóra.” verði felld út.
Breytingartillagan er felld með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Forseti ber upphaflegu tillöguna upp til atkvæða.

5

Tillagan er samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Bæjarstjóra falið að auglýsa breytinguna í B- deild stjórnartíðinda.
5. Breyting á fulltrúum í nefndum vegna brottflutnings.
Bæjarstjóri gerir grein fyrir því að Vigfús Helgason, Jón Gunnarsson og Guðrún
Gunnarsdóttir eru flutt úr sveitarfélaginu og því ekki lengur kjörgeng.
Halla Jóna Guðmundsdóttir verður aðalmaður í kjörstjórn í stað Vigfúsar Helgasonar.
Ingþór Guðmundsson verður varamaður í kjörstjórn.
Sigríður Ragna Birgisdóttir er þar með orðin 1. varamaður h- lista í bæjarstjórn í stað
Jóns Gunnarssonar.
H- listinn tilnefnir Sigurð Rúnar Símonarson sem skoðunarmann reikninga í stað
Guðrúnar Gunnarsdóttur.
Breytingarnar eru samþykktar samhljóða.
Sigríður Ragna víkur af fundi kl. 19.54. Jón Elíasson tekur sæti Sigríðar.
Forseti, fyrir hönd bæjarstjórnar, býður Jón velkominn á sinn fyrsta bæjarstjórnarfund.
6. Kjör fulltrúa í stjórn SSS og Menningarráð Suðurnesja.
Forseti ber upp tillögu um að Birgir Örn Ólafsson verði áfram fulltrúi Sveitarfélagsins
Voga í stjórn SSS og Menningarráði Suðurnesja og Róbert Ragnarsson til vara.
Tillagan er samþykkt samhljóða.
7. Fjárfestingarstefna eigin fjár Sveitarfélagsins Voga.
Formaður bæjarráðs leggur fram tillögu um að sjóðurinn verði settur í eignastýringu
hjá fjármálafyrirtæki sem fær heimild til að ráðstafa allt að 20% fjársins til
fjárfestinga í hlutabréfasjóðum innanlands og utan. Að lágmarki 80% fjársins verði
fjárfest í áhættulitlum sjóðum.
Fulltrúar H- lista telja að ekki ætti að taka neina áhættu með sjóðinn heldur stefna að
hæstu mögulegu ávöxtun án áhættu, sem sé að leggja féð inn á verðtryggðan reikning.
Fulltrúar H- lista leggja því fram breytingatillögu um að tekið verði tilboði
Sparisjóðsins í Keflavík um ávöxtun á verðtryggðum reikning.
Forseti ber breytingatillöguna upp til atkvæða.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Forseti ber tillögu formanns bæjarráðs upp til atkvæða.
Tillagan er samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Formaður bæjarráðs leggur fram tillögu um að bæjarstjóra verði falið að ganga til
samninga við Sparisjóðinn í Keflavík um samstarf á grundvelli þeirra
fjárfestingastefnu sem samþykkt hefur verið.
Bæjarstjórn felur bæjarstjóra jafnframt að vinna samþykkt um stjórn sjóðsins.

6
Inga Sigrún tekur undir tillögu meirihlutans um að leita til Sparisjóðsins í Keflavík
um að ávaxta þá peninga sem bæjarfélagið fékk við sölu á hlutabréfum í Hitveitu
Suðurnesja síðastliðið sumar. Við erum þó ósammála meirihlutanum um
fjárfestingarstefnu og viljum leggja til að farin verði áhættulaus, verðtryggð leið, án
fjármagnsgjalda sem þó mun tryggja afar góða ávöxtun. Það er okkar skoðun að sú
leið sem við leggjum til hjá Sparisjóði Keflavíkur sé betri en sú sem meirihlutinn
leggur til þegar tekið er tillit til heildarávöxtunar, áhættu og þeirra umsýslugjalda sem
fylgja fjárfestingum í hlutabréfasjóðum.
Forseti ber tillögu formanns bæjarráðs upp til atkvæða.
Tillagan er samþykkt með fjórum atkvæðum, þrír sátu hjá.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20.45.

Getum við bætt efni síðunnar?