Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga

39. fundur 20. febrúar 2008 kl. 18:00 - 18:25 Í bæjarráði Sveitarfélagsins Voga

Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga

 

39. fundur

 

Aukafundur haldinn í bæjarráði Sveitarfélagsins Voga, miðvikudaginn 20. febrúar 2008 kl. 18:00 að Iðndal 2.

 

Mættir eru Hörður Harðarson formaður, Birgir Örn Ólafsson og Inga Sigrún Atladóttir. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri ritar fundargerð í tölvu.

 

  1. Sértækar aðgerðir í starfsmannamálum.

Bréf frá starfsmönnum Stóru- Vogaskóla dags. 14. febrúar lagt fram þar sem óskað eftir álagsgreiðslum vegna aukins vinnuálags.

 

Ennfremur er vísað í bréf frá Starfsmannafélagi Suðurnesja frá 23. nóvember 2007 þar sem vísað er til óánægju ákveðinna starfsstétta, sérstaklega þeirra sem eru í lægstu launaflokkunum um niðurstöðu starfsmats.

 

Formaður vekur athygli á því að reglur sveitarstjórnarlaga um hæfi geti átt við um bæjarráðsmenn við afgreiðslu málsins.

 

Fulltrúi minnihlutans leggur fram eftirfarandi bókun.

Á síðasta bæjarstjórnarfundi var lögð fram tillaga minnihlutans þar sem lagt var til að starfsmönnum skóla og grunnskóla yrði umbunað sérstaklega fyrir aukið álag. Í upphafi umræðunnar vakti ég athygli á vanhæfi mínu þar sem ég er starfsmaður skólans, bæjarstjóri kom þá í ræðustól og sagði mig ekki vanhæfa þar sem fjallað væri um kjaramál starfsmanna almennt og til þeirrar umræðu væri ég hæf. Fyrir fundinn í dag ræddum við í minnihlutanum hæfi mitt til að taka afstöðu til málsins en niðurstaðan var sú að við teldum að orðum bæjarstjórans mætti treysta í þessum málum. Nú hefur komið í ljós að svo er ekki og vek ég því athygli á vanhæfi mínu og vík af fundi við afgreiðslu málsins.

 

 

Bæjarstjóri bókar eftirfarandi.

Það er rétt að á bæjarstjórnarfundi þann 9. febrúar síðastliðinn taldi ég að starfsmenn sveitarfélagsins sem jafnframt eru bæjarfulltrúar væru ekki vanhæfir til að fjalla almennt um kjaramál starfsmanna í bæjarstjórn. Hinsvegar er hér um að ræða sértæka umbun umfram almenn kjarasamningsákvæði og í ljósi þess eiga önnur sjónarmið við og verður því að telja bæjarfulltrúa sem jafnframt eru starfsmenn vanhæfa til þátttöku í afgreiðslu máls, sbr. mat lögfræðisviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

Jafnframt er það mitt mat að í vafatilvikum sé réttara að nefndarmaður víki sæti en að hann taki þátt í meðferð tiltekins máls, jafnvel þótt hann sjálfur telji ólíklegt að meintar vanhæfisástæður hafi áhrif á afstöðu hans í tilteknu máli. Á þann hátt sé ákvörðun hafinn yfir allan vafa.

Inga Sigrún víkur af fundi.

 

Í framhaldi af vinnu stýrihóps um starfsmannastefnu Sveitarfélagsins Voga leggur meirihluti E- listans fram eftirfarandi tillögur um sértækar aðgerðir í starfsmannamálum. Sambærilegar tillögur eru lagðar fram í Sandgerðisbæ og Sveitarfélaginu Garði.

Með aðgerðunum er ætlunin að umbuna því góða starfsfólki sem vinnur hjá sveitarfélaginu og sýnir því tryggð og velvilja. Vonast er til að þessi breyting efli enn frekar starfsanda á stofnunum sveitarfélagsins.

Tillaga 1. Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga samþykkir að leggja allt að 6,5 milljónir kr. aukalega í launagreiðslur til starfsmanna sveitarfélagsins á árinu 2008. Um er að ræða greiðslur til starfsmanna sem greiddar verða 1. maí og 1. september. Þeir starfsmenn sem eru í föstu starfi hjá Sveitarfélaginu Vogum 1. maí og 1. september fá umræddar eingreiðslur á árinu 2008.

Markmið með þessum aðgerðum er að koma til móts við aukið álag starfsmanna vegna fjölgunar íbúa á undanförnum árum, stuðla að stöðugum gæðum þjónustunnar og ekki síst til að lágmarka starfsmannaveltu.

Samþykktin byggir á eftirfarandi viðmiðum:

Ófaglærðir starfsmenn í STFS og VSFK sem eru í launaflokki 122 og neðar fái greiddar 40.000 kr. 1. maí og 40.000 kr. 1. september miðað við 100% starfshlutfall.

Aðrir starfsmenn í STFS og VSFK fái greiddar 30.000 kr. 1. maí og 30.000 kr. 1. september miðað við 100% starfshlutfall.

Grunnskóla- og leikskólakennarar og annað háskólamenntað starfsfólk fái greiddar 50.000 kr. 1. maí og 50.000 kr. 1. september miðað við 100% starfshlutfall.

Tillaga 2. Bæjarráð samþykkir að stuðla að heilsueflingu meðal starfsmanna sveitarfélagsins með eftirfarandi hætti:

Sveitarfélagið Vogar styrkir þá starfsmenn sveitarfélagsins sem vilja stunda reglubundna líkamsrækt með 15.000 kr. fjárframlagi á móti árgjaldi á árinu 2008. Starfsmenn í hlutastarfi fá framlag miðað við hlutfall starfs. Greiðsla styrkja fer fram hjá gjaldkera gegn framvísun kvittunar á greiðslu ársgjalds eða árskorts.

Stuðningurinn er liður í stefnu meirihluta bæjarstjórnar um heilsueflingu meðal starfsmanna og kemur í framhaldi af öðrum aðgerðum, svo sem heilsufarsmælinga og hvatningu til skipulegra gönguferða.

Bæjarráð leggur áherslu á þá staðreynd að umboð sveitarfélagsins til kjarasamningsgerðar er hjá launanefnd sveitarfélaga. Kjarasamningar, röðun í launaflokk og starfsmat á að byggja upp í frjálsum samningum á milli stéttarfélaga og launanefndar sveitarfélaga.

Bæjarráð vill hinsvegar leggja áherslu á að í kjarasamningum sem gerðar verða á árinu 2008, verði gert ráð fyrir þeim möguleika, að greiða megi starfsmönnum launaviðbætur, vegna tímabundinna aðstæðna sem upp kunna að koma í einstökum sveitarfélögum, eftir formlegum leiðum og með gagnsæu ferli.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.25.

Getum við bætt efni síðunnar?