Umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Voga

3. fundur 28. apríl 2004 kl. 17:00 - 18:30 Stóru-Vogaskóla

3. fundur í Umhverfisnefnd Vatnsleysustrandarhrepps var haldinn

miðvikudaginn 28. apríl 2004 í Stóru-Vogaskóla í Vogum kl. 17 – 18.30

Mættir eru: Þorvaldur Örn Árnason, Margrét Ingimarsdóttir, Guðrún Andrea

Einarsdóttir og Helga Ragnarsdóttir sem jafnframt ritar fundargerð.

Einnig sátu fundinn: Sigurður Ásgrímsson og Jónas Þorvaldsson frá sprengjudeild

Landhelgisgæslunnar, Oktavía J. Ragnarsdóttir, Þórdís Símonardóttir og Ivan

Frandsen frá Skógfelli og Helgi Viðarsson frá Skátafélaginu Heiðarbúum.

Efni fundarins: Kynning á sprengjuleit á Vogaheiði.

Sigurður Ásgrímsson kynnti fundarmönnum starf sprengjudeildar

Landhelgisgæslunnar á Vogaheiði. Honum til aðstoðar var Jónas Þorvaldsson. Í máli

Sigurðar kom fram að bækistöðvar hefðu verið við Háabjalla og að mestu hafi verið

skotið þaðan í austur og suð-austurátt en einnig frá litla-Skógfelli. Svæðið var notað

af Bandaríkjamönnum í um 10 ár allt til ársins 1965 og hefur hvergi á landinu verið

skotið jafn miklu magni að alls kyns sprengihleðslum og þarna.

Sprengjuleit, var gerð á svæðinu árið 1986 og aftur 1996, sjónleit án leitartækja og

fundust þá um 600 sprengjur og kúlur.

Landhelgisgæslumenn hafa fundið kort sem Landmælingar gerðu 1951 eftir

herforingjaráðskorti, útlínur skotæfingasvæðisins. Svo virðist sem aðallega hafi verið

skotið frá einum stað nálægt Hábjalla og Reykjanesbraut. Fullvíst má telja að

einhverjar sprengjuhleðslur hafi lent utan hins afmarkaða æfingasvæðis.

Gera má ráð fyrir að stærstu sprengjuhleðslurnar hafi borist um 7 km leið. Þeir

Sigurður hafa teiknað kort af svæðinu þar sem því er skipt í belti eftir því hvar

líklegast er að finna hleðslur af hverri stærð.

UXO er alþjóðlegt tákn fyrir ósprungnar sprengjuhleðslur sem einhverra hluta

vegna springa ekki þegar þeim er skotið. Er talið að um 20% af öllum sprengjum sem

skotið er springi ekki. Ef vitað væri hversu mikið magn var notað við æfingarnar á

umræddu svæði gæti það auðveldað mjög alla leit en erfitt hefur reynst að fá þær

upplýsingar frá Bandaríkjaher.

Í máli Sigurðar og Jónasar kom fram að svæði eins og þetta verði aldrei

hreinsað að fullu. En með nýjustu málmleitartækjum megi nánast útiloka að

sprengjur finnist á afmörkuðum svæðum þar sem nákvæm leit hefur farið fram. Í því

sambandi nefndu þeir félagar svæði landgræðslu- og skógræktarfélagsins Skógfells

við Háabjalla. Eftir sprengjufund barna þar síðastliðið sumar var svæðið frá

bjallanum og að neðstu tjörninni (Snorrastaðatjarnir) fínkembt og meðal annars kafað

þar með leitartæki. Þess má geta að málmeitartækin sem landhelgisgæslan notar við

vinnu sína eru svo nákvæm að finna má drykkjarfernur sem liggja undir gróðurlaginu.

Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar hefur kortlagt skotæfingasvæðið eftir

fyrirliggjandi gögnum og gert áætlun um sprengjuleit þar sem svæðum er

forgangsraðað eftir því hvar fólk er helst á ferli. Mikilvægast er að leitað verði ítarlega

á þeim svæðum þar sem umferð fólks er hvað mest eins og gert hefur verið við

Háabjalla og var leiðin yfir heiðina til Grindavíkur um Skógfellastíg einnig nefnd

ásamt svæðinu umhverfis skátaskálann. Skógfellastígurinn hefur reyndar verið

sjónleitaður en þannig leit er ekki fullnægjandi.

 

Austan skátaskála Heiðarbúa er svæði sem einnig þarfnast hreinsunar. Þar er að finna

mikið magn járnadrasls sem erfitt er að flytja burt af svæðinu nema með þyrlu eða að

urða það á staðnum.

Sýndar voru myndir af algengustu gerðum af sprengjum sem fundist hafa á

svæðinu og virkni þeirra tíunduð. Má meðal annars nefna að ef sprengja finnst er hún

ekki flutt annað heldur sprengd á staðnum með sprengihleðslu sem komið er fyrir á

henni eða gerð óvirk. Flutningur er of hættulegur. Krafturinn í sprengjum eins og

þeim sem fundist hafa er gríðarlegur og eru sprengjuflísarnar sem verða til þegar þær

springa lífshættulegar. Nefndu þeir Sigurður og Jónas að öryggissvæðið fyrir 80 mm

Mortar (af þeirri tegund er mikið magn þess sem hefur fundist og m.a. sú sem börnin

fundu á Háabjalla í fyrrasumar) miðaðist við einn kílómetra, þ.e. í þeirri vegalengd

ætti maður að vera nokkuð öruggur ef sprenging yrði.

Í haust stendur til að Landhelgisgæslan verði með námskeið fyrir

sprengjusérfræðinga víða að úr heiminum, meðal annars Bandaríkjamenn. Er

hugmyndin að sögn Sigurðar sú að einhverjum dögum áður verði hægt að nýta

mannskapinn og þeirra öflugu leitartæki til leitar á þessu umrædda svæði á Vogaheiði.

Sú leit væri þýðingarmikil því íslenska sprengjudeildin er fámenn og tæki langan tíma

að leita allt það svæði sem kortlagt hefur verið. Ekkert hefur þó verið ákveðið í þessu

sambandi.

Eins og fyrr segir verður svæðið aldrei að fullu hreinsað. Fram kom að ekki

væri talið mjög hættulegt ef stigið væri á niðurgrafna sprengju. Helsta hættan fælist í

því ef hlutir af þessu tagi væru handfjatlaðir og hreyfðir úr stað. Fræðsla er því mjög

mikilvæg og nýju upplýsingaskiltin þar með. Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar

heldur eindregið á lofti gildi þess að sem flestir þekki hættuna.

Í lok fundarins skoðuðu fundarmenn og fræddust um ýmsar gerðir af

sprengjum sem hafa fundist á Vogaheiði.

 

Fundi slitið kl 18:30

Getum við bætt efni síðunnar?